Ólafur Páll Gunnarsson - Þingmenn - þið hafið engan rétt (Herðubreið. 09.12.2014)

Þeir þingmenn sem sitja á Alþingi á hverjum tíma eru fulltrúar okkar hinna, fulltrúar þjóðarinnar. Það komast ekki allir Íslendingar fyrir í þingsalnum og það geta ekki allir stjórnað í einu og þess vegna kjósum við fólk sem okkar fulltrúa til að tala okkar máli á Alþingi – einn þingmann á hverja 5 þúsund landsmenn eða þar um bil. Þetta vitum við … eða hvað?
Eitt af því sem gerir okkur að þjóð er sú staðreynd að við getum talað saman. Við tölum sama tungumál, skiptumst á skoðunum, hlustum á sama útvarpið og horfum á sama sjónvarpið. RÚV, Ríkisútvarpið, þjóðarútvarpið, er eitt af því sem tengir okkur saman og gerir okkur að einni þjóð. Ríkisútvarpið er sameign okkar allra. Þetta vitum við … eða hvað?
Eitt af því sem síðasta ríkisstjórn gerði eftir hrun var að taka hluta af lögbundnu útvarpsgjaldi, sem er ákveðið á Alþingi, og nota það til að stoppa upp í risastórt fjárlagagatið. Ég er að tala um útvarpsgjaldið sem á lögum samkvæmt að renna allt til Ríkisútvarpsins. Okkur sem unnum og vinnum á Ríkisútvarpinu, og mörgum öðrum, fannst þetta súrt, en við skildum þessa ákvörðun. Hún átti að vera til bráðabirgða og átti að ganga til baka þegar þjóðarskútan væri komin út úr mesta storminum. Það hefur ekki enn gerst. Þetta vitum við … eða hvað?
Fyrrverandi og núverandi útvarpsstjóri hafa báðir barist fyrir því að Ríkisútvarpið fái þá peninga, sem ákveðið er með lögum á Alþingi að það eigi að fá, frá fólkinu sem á Ríkisútvarpið og tekur þátt í fjármögnun þess með peningunum sínum, en þeir sem eru á aldrinum 18-70 ára og hafa 1.559.003 kr. í tekjur á ári borga rúmlega 50 krónur á dag fyrir Rás 1, Rás 2, Sjónvarpið, Rondo og ruv.is. Útvarpsstjórarnir hafa lagt mikið á sig til að fá ríkið til að skila öllu útvarpsgjaldinu og hætta að setja það í annað, en nú þegar loksins lítur út fyrir að baráttan sé að vinnast ákveður ríkisstjórnin að lækka útvarpsgjaldið áður en hún skilar því.
Það er gott að lækka skatta og það er gott að sýna aðhald í útgjöldum hins opinbera. Þetta vitum við en stóra – risastóra spurningin er þessi: Hvað vakir fyrir ríkisstjórn Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs? Hvers vegna telja þeir að það sé betra fyrir Ísland og Íslendinga að lækka útvarpsgjaldið árlega um 3.000 krónur á hvern greiðanda? Þetta eru 250 krónur á mánuði, rétt rúmar 8 krónur á dag. Þó svo að lækkunin sé ekki meiri en þetta þá skipta þessar krónur Ríkisútvarpið öllu.
Þegar íslenska þjóðin er spurð að því hvort hún vilja lækka útvarpsgaldið segja flestir: Nei – en ég vil að það renni allt til Ríkisútvarpsins. Og hvað er þá málið? Hvers vegna er það svona mikið kappsmál að Ríkisútvarpið fái minni peninga en í gær og fyrra og árið þar á undan? Getur verið að gamla samsæriskenningin sé sönn eftir alltsaman; að ákveðin öfl innan stjórnarflokkanna vilji hreinlega losna við Ríkisútvarpið, drepa það, selja það, einkavæða það á einhvern hátt…; getur það verið? Já, ég held því miður að það geti verið. Ég sé a.m.k. engin önnur rök.
Ef þeir þingmenn sem eru fulltrúar okkar ætla að greiða atkvæði með því að við spörum þessar 8 krónur á dag, hefur það dramatískar og kæfandi afleiðingar í för með sér fyrir Ríkisútvarpið, og ekki bara núna á næsta ári, heldur um ókomna tíð. Ef Ríkisútvarpið fær ekki þessar tekjur þarf að breyta starfseminni mjög mikið frá því sem við þekkjum hana í dag. Við erum ekki að tala um neitt smá rok, heldur hamfarastorm í Efstaleiti og enn eitt skrefið í átt að endalokum Ríkisútvarpsins. Ef útvarpsgjaldið verður minnkað um þessar 3.000 krónur á mann á ári þá jafngildir það því t.d., að öll dagskrá útvarpsins, bæði Rásar 1 og Rásar 2, yrði þurrkuð út, enda borga 3.000 krónur á mann í raun sem samsvarar allri dagskrárgerð beggja rásanna. Ég er ekki að segja að það verði slökkt á útvarpinu ef þetta frumvarp verður samþykkt, en tölurnar eru í þessum stærðarflokki.
Það er búið að fara í miklar aðgerðir á Ríkisútvarpinu á undanförnum árum. Starfsmenn voru 340 árið 2008 en nú eru þeir um 230, sem sagt yfir 30 prósent niðurskurður í starfsmannahópnum. Þjónustan hefur þegar verið skert. Dregið hefur úr fréttaþjónustu, dregið hefur úr starfsemi útvarpsleikhúss, aukinn endurflutningur er á báðum útvarpsrásunum, svæðisútsendingar hafa verið lagðar af og svo framvegis.
Til að stoppa upp í 3.000 kr. gatið verður gengið enn frekar á starfsmannafjöldann og heilu deildirnar mögulega slegnar af. Kannski verður hætt að senda út frá landsleikjum í fótbolta og handbolta og kannski verða bara engar íþróttir. Mögulega munu veðurfréttir í sjónvarpi verða lagðar niður, sem og Kastljós. Rás 1 hættir ef til vill samstarfi sínu við Sinfóníuhljómsveit Íslands; Rás 2 og RÚV. verða ekki á Arnarhóli á Menningarnótt; það verður ekkert áramótaskaup; Rás 2 sendir ekki út frá Bræðslunni; …við erum rétt að byrja að reyta af okkur fjaðrirnar.
Það er margt sem má gera betur í Ríkisútvarpinu en það er önnur umræða og annað mál. Ég á að sjálfsögðu von á að einhverjir svari þessum litla pistli mínum á þann veg að ég sé nú bara hræddur við að missa vinnuna mína og það alltsaman. Já, vissulega vil ég ekki missa vinnuna mína frekar en aðrir, en þetta snýst ekki um það. Ég trúi því einfaldlega að það sé verra að búa á Íslandi sem hefur ekki gott, sjálfstætt og óháð Ríkisútvarp. Miklu verra meira að segja.
Þeir sem eru kjörnir fulltrúar á Alþingi í dag eiga að hugsa um hagsmuni okkar allra; við kjósum þá ekki til að þjóna flokknum, vinum sínum eða einhverjum öðrum sérhagsmunum. Og ef einhver ykkar sem eruð á Alþingi í dag nennið að lesa þetta þá eru þetta skilaboðin: Þið hafið alls engan rétt til þess að eyðileggja Ríkisútvarpið sem við eigum öll saman. Þið getið það, en ég trúi ekki að þið ætlið að gera það.
Ólafur Páll Gunnarsson
Höfundur er tónlistarstjóri Rásar 2 – starfsmaður Ríkisútvarpsins síðan 1991.