Dimma - Við sem elskum þungarokk (Fb. 05.12.2014)

Við sem elskum þungarokk höfum ekki verið í miklum forgangi hjá fjölmiðlum á þessu góða landi okkar í gegnum tíðina. Það er gríðarlega erfitt fyrir þungarokkshljómsveitir að koma sinni tónlist á framfæri í útvarpi og sjónvarp er nánast ekki til fyrir þessa tónlist.
En ef maður skoðar hvað RÚV hefur verið að gera fyrir okkar tónlist og bara almennt séð fyrir íslenska tónlist þá fyllist maður von um að við séum að ná í gegn til þeirra fjölmörgu rokkhunda sem byggja þetta land. Uppá síðkastið hefur RÚV komið sterkt inn með Stúdíó A þar sem DIMMA, Skálmöld og Sólstafir hafa allar komið fram á síðustu vikum til að spila tónlist sem venjulega er ekki talin verðug þess að koma fram fyrir sjónir "almennings" í almennum fjölmiðlum. Rás 2  hefur auðvitað alltaf lagt sig fram um að gefa okkur í rokkbransanum mikilvægt tækifæri á að koma okkar tónlist á framfæri við hlustendur sína. Beinar útsendingar frá Bar 11, Rokkjötnum, Studio 12, Dordingull á Rás 2, Plötuskápurinn og margt fleira eru dæmi um það. 

Þegar fólk talar fjálglega um að nú sé hið "Íslenska metal sumar" þá er mikilvægt að hugsa um það að þessi gróska er ekki sjálfssprottin. Rokkböndin vita það að ef metnaður er lagður í verkefnið og vandað er til verka þá er alltaf hægt að hafa samband við þáttagerðarmenn á R2 til að leyfa þeim að heyra stöffið, fá að koma í smá viðtal og kynna það sem menn eru að gera hverju sinni. Þar hittir maður fyrir fólk sem er búið að hlusta á lögin sem þeim eru send og hefur einlægan áhuga á tónlistinni. Það er ekki sjálfgefið að íslensk tónlist blómstri með þeim hætti sem hún gerir nú um stundir. Þetta er lítill markaður, það er erfitt að fá fólk á tónleika og plötusala er í frjálsu falli. Ef það er ekki til svona batterí eins og RÚV sem sinnir þessu hlutverki þá verða áhrifin á tónlistarsenuna mjög mikil og slæm.
Við í DIMMU ætlum ekki að gera fólki upp stjórnmálaskoðanir né blanda pólítík inn í okkar kynningarstarf aðra daga en í dag er dagur íslenskrar tónlistar og við ásamt bræðrum okkar í Skálmöld og Sólstöfum fögnum því að hafa fengið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í morgun. Okkur er til efs að þessi uppgangur þungarokks væri staðreynd ef RÚV sinnti ekki þessu menningarhlutverki sínu auk ástar starfsfólksins þar á íslenskri tónlist. Pælum aðeins í stóru myndinni og látum ekki eyðileggja innviði íslenskrar tónlistar eða draga hana ofan í eitthvað pólitískt drullusvað.