Jakob Frímann Magnússon - Hlúa ber að vöggu íslenskrar menningar (Morgunblaðið, 24.10.2014)

"Ríkisútvarpi hverrar þjóðar mætti líkja við spegil sem horfast þarf í augu við."

Ríkisútvarpið (RÚV) hefur stundum verið nefnt vagga íslenskrar menningar. Það er sannarlega umsvifamesta menningarstofnun þjóðarinnar, ber ríkar skyldur og gegnir hlutverki sem enginn annar fjölmiðill gegnir með sama hætti. RÚV sinnir skráningu og varðveislu menningarsögu okkar, fræðir, axlar samfélagslega ábyrgð, starfar utan hefðbundinna markaðslögmála og ber að sinna almannahagsmunum, þ.m.t. almannavörnum ef þörf krefur.
Síharðnandi samkeppni ríkir nú um tíma fólks og athygli, á æ hávaðasamari akri fjölmiðlunar, netsins og óteljandi afþreyingar- og upplifunarkosta. Reyndar hefur sá hávaði allur í bland við skjóta snjallsímavæðingu leitt af sér nýtt og viðvarandi ástand meðal þjóða, þeirrar íslensku þar með: almennan athyglisbrest og óróleika. Ástandið lýsir sér helst í að fólk á öllum aldri er á sífelldum þeytingi milli smáskilaboða, Facebook-statusa og Youtube-rása að ekki sé minnst á óteljandi útvarps- og sjónvarpsrásir, innlendar sem erlendar. Tímabært væri nú, í þessu samhengi öllu, að skerpa á gildum á borð við almenna mannasiði, t.a.m. á matmálstímum, mikilvægi þess að öðlast og viðhalda almennu læsi og skapa sér reglubundinn sálufrið í dagsins óðu önn – utan áreitis af völdum alls þessa.
Samkeppni á fjölmiðlamarkaði er um þessar mundir harðari en oftast áður og óvíst um framtíð bæði hefðbundinna prentmiðla og ljósvakamiðla, einkum vegna þess hve umgengni um höfundarvarið efni hefur hrakað í skjóli netsins. Þá hefur áskriftum höfundarvarins efnis verið sagt upp í vaxandi mæli, hér sem annars staðar.
Mikilvægt er að tryggja frjálsum fjölmiðlum svigrúm á auglýsingamarkaði við aðstæður sem þessar svo að þeir fái þrifist og veiti ríkisfjölmiðlinum nauðsynlega og eðlilega samkeppni.
Jafnframt er það mikilvægara nú en nokkru sinni að tryggja Ríkisútvarpinu starfsgrundvöll og svigrúm til metnaðarfullrar íslenskrar dagskrárgerðar, sem ekki er undantekningarlaust háð kapphlaupi um markaðshlutdeild en leitast þess í stað við að færa okkur í senn á dýpri mið og æðri svið. Styrkir þannig sjálfsmynd okkar og sjálfstraust sem þjóð meðal þjóða.
Hvers vegna?
Ríkisútvarpi hverrar þjóðar mætti líkja við spegil sem horfast þarf í augu við. Spegil, sem þegar best lætur speglar blómlega menningu og metnað en getur, ef ekki er vel að hlúð, valdið þjóð sinni óþægindum, jafnvel blygðun.
Íslendingar hafa öldum saman verið þekktastir af hugverkum sínum og sköpunargleði. Svo er enn. Frá verkum rithöfundanna Snorra og Laxness að blómgandi hljómprúðum Björkum og SigurRósum þessa lands. Stétt hryntónlistarfólks er í dag æði fjölmenn og framtakssöm; blés til hvorki meira né minna en 1.600 tónleika á erlendri grund á sl. ári.
Nýgild íslensk hryntónlist er um þessar mundir „gúgluð“ margfalt á við Ísland sjálft, þrátt fyrir að stoðkerfi hins opinbera hafi áratugum saman virt hana algjörlega að vettugi – að einni stofnun undanskilinni: RÚV.
Ríkissjónvarpið hefur árum saman sýnt íslenskri hryntónlist verðugan áhuga, Rás 1 sömuleiðis en fyrst og fremst þó Rás 2 sem hefur ræktað íslenska hryntónlistargarðinn öllum öðrum fremur og sýnt það í verki á undanförnum árum með yfir 50% hlutdeild íslenskrar hryntónlistar í dagskrárgerð sinni. Hefur að auki um árabil hljóðritað og útvarpað um heimsbyggð alla þeirri íslensku tónlist sem nú er orðin jafnástsæl og raun ber vitni. Geri aðrir betur!
Vanhugsaður dónaskapur
Það er því rakinn dónaskapur í garð þeirrar stéttar sem svo vel hefur staðið sig á skreipum alþjóðamörkuðum, afskipt af öðrum ríkisstuðningi en stuðningi RÚV og Rásar 2, að viðhalda málflutningi um að selja beri Rás 2, ef ekki Ríkisútvarpið í heild sinni! Rökin eru helst þau að ríkið hafi ekkert með hryntónlistarstöð að gera! Sú vanvirða er þó að líkindum vanhugsuð því staðreyndin er sú að Rás 2 aflar stærsta hluta auglýsingatekna útvarpssviðsins en hefur alla tíð fengið aðeins brot af þeim tekjum til eigin dagskrárgerðar. Lætur nærri að Rás 2 hafi aflað 75% auglýsingatekna útvarpssviðs en fengið 35% dagskrárfjár sviðsins. Stefgjöld myndu ekki minnka við brotthvarf Rásar 2 heldur sæti Rás 1 uppi ein með þann gjaldalið sökum þess að RÚV greiðir tiltekna prósentu af heildartekjum sínum til STEF óháð fjölda rása.
Um fjárhagsvanda RÚV er iðulega rætt án þess að setja í samhengi við þá staðreynd að árið 1996 ákváðu stjórnmálamenn að demba á RÚV lífeyrissjóðsskuldbindingum sem hafa vaxið og stökkbreyst eftir hrun í heila sex milljarða. Auk þessa hefur átt sér stað stöðugur niðurskurður á ráðstöfunarfé stofnunarinnar og til að bíta höfuðið af skömminni má stofnunin sæta því að fá ekki einu sinni það útvarpsgjald sem sérstaklega er á lagt og innheimt til að treysta stoðir Ríkisútvarps allra landsmanna.
Hvort tveggja er í senn fullkomlega óeðlilegt og ólíðandi.
Nýr útvarpsstjóri, sem mikil sátt ríkir um, hefur tekið til starfa hjá RÚV eftir afar blómlega forystu annarra menningarstofnana. Hann hefur í samstarfi við stjórn og aðra nýja stjórnendur RÚV af skörungsskap dregið upp heildstæða mynd af fjárhagsstöðu RÚV á þeim tímapunkti sem skipt var um framkvæmdastjórn í félaginu í vor. Þar opinberast margra ára uppsafnaður vandi – en þegar er farið að bera á því að menn vilji skjóta sendiboðann fyrir að benda á brestina í aðstöðu RÚV. Nauðsynlegt er að nýjum stjórnendum séu skapaðar raunhæfar aðstæður til að reka þessa mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar.
Ríkisstjórn Íslands á að sjá sóma sinn í því að taka á fjárhagsvanda RÚV í eitt skipti fyrir öll – og tryggja stofnuninni traustan grundvöll – hreint borð og hreinan spegil sem við getum horfst í augu við án kinnroða eða væls um steinsteypu eða lífeyrissjóði.
Nýr útvarpsstjóri er á hárréttri braut er hann leitar samstarfs við Reykjavíkurborg um frekari nýtingu Efstaleitislóðarinnar og losar um helming RÚV-hússins í hagræðingarskyni. Réttast væri að ríkið keypti húsið og leigði RÚV á sanngjörnu verði svo að takmarkað ráðstöfunarfé stofnunarinnar brenni ekki lengur ótæpilega á vaxta- og afborganabáli.
Þannig getum við ætlast til aukinna dáða af RÚV og treyst stoðir þessarar mikilvægu vöggu menningar og skapandi greina á Íslandi.
Höfundur er tónlistarmaður.