Guðmundur Gunnarsson - Aðförin að íslenskri tungu og sjálfstæði þjóðarinnar (Herðubreið. 11.12.2014)

Sigmundur Davíð forsætisráðherra talar ítrekað um mikilvægi samstöðu og jákvæðni þjóðarinnar og skaðann af þeim sem eru neikvæðir. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna var því heitið að „rækta með þjóðinni þær dyggðir sem best tryggja farsæld og jafnræði.“
Ráðherrar hafa ítrekað lýst því yfir að þeir vilji starfa í góðri sátt og samstarfi við þjóðina og samtök launamanna, en þegar sest er að samningaborðum verður niðurstaðan ætíð sú að sáttin verði að vera á grundvelli þess sem ríkisstjórnin leggur fram. Það sé mikill „ómöguleiki“ fólginn í því að fara að vilja þjóðarinnar. Þær skoðanir sem fjölmiðlar eiga að birta verða að falla að heimsýn Sigmundar Davíðs og samráðherra hans.
Samræða er mikilvægur liður í því að móta samfélagið. Fyrsta verk einræðisstjórna er að móta goðsagnir og ráðast að tungumálinu og samskiptum meðal þjóðarinnar m.a. með því að eyðileggja merkingu orða. Sigmundur Davíð og ráðuneyti hans hafa vaðið yfir tungumál okkar á skítugum skónum og rifið í sig merkingu orða. Snúið út úr hverri spurningu sem til þeirra er beint. Þessi vinnubrögð eru velþekkt úr stjórnmálafræðum.
Í orðabók forsætisráðherra og samráðherra eru reglulega endurtekið að strax þurfi að koma til móts við heimilin og leiðrétta þann forsendubrest sem þau hafa orðið fyrir. Hér er orðið heimilin notað um þá sem skulda húsnæðislán, en samkvæmt viðtekinni merkingu íslenskunnar þá er ráðherra að segja að þeir sem ekki skulda hússnæðislán eigi ekki heimili.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa markvisst og vísvitandi beitt fyrir sig afvegaleiðingu orða og hugtaka. Það jafngildir spillingu tungumálsins, sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskipta þeirra við samfélagið. Þetta framferði framkallar siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags. Spilling tungunnar og spilling siðferðis fer saman.
Tilhneigingin að breyta merkingum og kalla svart hvítt og öfugt hefur gengið mjög vel síðustu ár. Nú eru loforð ekki lengur loforð. Viðræðuslit þýða að verið sé að draga viðræður tilbaka. Orðið strax þýðir ekki strax, nema þegar það hentar. Hvað er verið að leiðrétta með skuldaleiðréttingu? Hvaða villa var gerð? Þarna er verið að blekkja.
Leiðrétting er orðin að skrauthvörfum þar sem það liggur í raun ekki fyrir hvað sé verið að leiðrétta. Forsendubrestur þar sem ráðamenn ganga fram í því að vekja rangar væntingar og koma sér síðan undan því að standa við loforðin. Hvaða forsendur brustu og hverjir voru það sem urðu fyrir þessum forsendubresti?
Framkoma ráðamanna við tungumálið er það alversta og hættulegasta sem hefur dunið á okkur undanfarin ár. Vísvitandi er gengið í að blekkja og slá ryki í augu fólks. Síðan er endurtekningin nýtt til þess að hamra á hlutunum svo almenningur fari að tileinka sér hugtakið og fara að ræða hlutina á fölsuðum forsendum.
Stjórnmálaræður og skrif aðstoðarmanna ráðherra hafa undanfarið einkennst af vörnum á því sem er óverjandi. Síðustu ár hefur þetta ástand farið síversnandi hjá ráðandi stjórnmálamönnum og aðstoðarmönnum þeirra á ábyrgðalausan hátt og vísvitandi er verið að blekkja og slá ryki í augu fólks.
Við ritun þessa pistils rifjaðist upp fyrir mér þegar fyrrv. blaðamaður á DV undir ritstjórn Óla Björns varaþingmanns Sjálfstæðismanna skrifaði grein og lýsti því þegar Óli og hans helstu samstarfsmenn umskrifuðu viðtöl og fréttir ef þeim þóttu þau ekki túlka skoðun Sjálfstæðisflokksins á nægilega heppilegan hátt.
Rifjum upp nokkur ummæli. Sigmundur Davíð kom laskaður út úr viðtölum hjá RÚV við Gísla Martein og Sigmar, auk þess lýsti hann miklum vonbrigðum með fréttastofu RÚV þegar spilaðar voru upptökur úr kosningabaráttu Framsóknar og farið yfir misræmið í framsetningu stjórnarliða fyrir og eftir kosningar. Sigmundur Davíð kallaði þessa umfjöllun „Fyrsti mánuður loftárása“.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hótaði á síðasti ári að hún ætlaði að beita sér gegn „vinstrisinnuðu“ og „ESB-sinnuðu“ Ríkisútvarpinu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ítrekað vegið að RÚV og m.a. lagt til að loka þáttum Egils Helgasonar. Sigrún Magnúsdóttur þingflokksmaður hefur lýst því yfir að framsóknarmenn „nenni ekki lengur“ að styðja Ríkisútvarpið og allir viti hvers vegna.
Já það er rétt hjá Sigrúnu, það vita það allir. Hér eru á ferðinni ráðandi öfl sem vega að málfrelsi og ritfrelsi ritstjórna RÚV og hóta niðurskurði og uppsögnum hjá RÚV sýni starfsmenn þessarar ríkisstofnunar ekki samstöðu með þeim sem sitja við stjórnvölinn. Þess er krafist að fréttamenn láti viðtöl við rétta og innvígða stjórnmálamenn nægja sem einu heimildina í frétt.