Ályktanir



The General Assembly of the EBU expresses its concern over dramatic cuts being demanded from public service broadcasters all over Europe.



Just over a week ago the Icelandic public service broadcaster, RUV, announced that more than 20 percent of its staff will be forced to leave due to massive cuts in the public funding of the company.


This is the latest in a series of similarly massive cuts that have been imposed in recent years on EBU Member, which in many countries are now, as a consequence, struggling to fulfil the most essential parts of their remit.

The 71st EBU General Assembly expresses its grave concern over this continuing development.

In situations where dramatic changes are taking place throughout Europe and the world, democracy requires a well functioning media that is impartial and independent in providing citizens with the information that they require. Providing the public with such information is at the heart of the remit and mission of public service media, which must continue to fulfil this essential role within the European media landscape.

The managements of public service media companies are making every effort to improve the efficiency of their organizations in consideration of the economic difficulties they face, but excessive budget cuts to public service media cannot serve as a quick fix to a nation's economic woes; it is precisely at times of crisis that the public needs strong public service media to be an indispensable source of reliable, quality information.
-------------


[06.12.13]

Stjórn BSRB mótmælir harðlega enn einni fjöldauppsögn starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið hefur um áratuga skeið verið mikilvægur og nauðsynlegur hluti almannaþjónustunnar á Íslandi. Fyrir utan að gegna öryggishlutverki hefur Ríkisútvarpið stuðlað að jöfnu aðgengi allra að opinberri umræðu, afþreyingu, íþróttaviðburðum, menningu og fréttum. Með uppsögnum um fimmtungs starfsmanna Ríkisútvarpsins er ekki verið að gæta aðhalds heldur lama innviði stofnunarinnar og vandséð er að RÚV geti í kjölfarið staðið undir lögboðnu hlutverki sínu.

Með fjöldauppsögnunum varð enn einn hluti þess sem BSRB varaði við þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag að veruleika. Sú breyting átti m.a. að skila hagkvæmari rekstri, sérstakt útvarpsgjald átti að tryggja fjármögnun Ríkisútvarpsins og starfsfólk átti að fá meira rými til að semja um laun sín á grundvelli verksviðs, ábyrgðar og hæfileika. Á þeim árum sem liðið hafa frá breytingunni hefur reksturinn aftur á móti orðið óhagkvæmari, ríkissjóður tekur sífellt til sín hærra hlutfall útvarpsgjaldsins til annarra verkefna og réttindi starfsfólks eru mun minni en áður.

Ríkisútvarpið hefur alla tíð notið mikils trausts almennings og gerir enn. Ríkisútvarpið heldur úti einu sjónvarpsstöðinni sem allir hafa aðgang að og hefur hún, ásamt útvarpsrásunum tveimur, þjónað skyldum sínum af alúð og dugnaði um áratuga skeið. Víða um land og á fiskimiðunum eru útsendingar RÚV einu fjölmiðlarnir sem í boði eru. Ríkisútvarpið er því mikilvægur hluti almannaþjónustunnar sem stuðlar að jöfnu aðgengi allra að upplýstri umræðu, fréttum, íþróttum, menningu og annarri afþreyingu.

Samfélagið allt mun bíða óbætanlegt tjón af þessari aðför að Ríkisútvarpinu. Þjóðin þarf á öflugum almannaþjónustumiðli að halda. Stjórn BSRB krefst þess að stjórnvöld tryggi Ríkisútvarpinu þær tekjur sem réttilega eiga að renna til þess í formi útvarpsgjaldsins. Öðruvísi er Ríkisútvarpið illa í stakk búið til að gegna lögbundnu hlutverki sínu í nútímalegu lýðræðissamfélagi.
-------------


Ályktun FÍT - klassískrar deildar FÍH
[06.12.13]


Félag íslenskra tónlistarmanna – klassísk deild FÍH mótmælir niðurskurði og uppsögnum á RUV og sérstaklega á tónlistardeild Rásar 1. Tónlistardeildin hefur frá upphafi starfs Ríkisútvarpsins verið grunnstoð í íslensku tónlistarlífi.

Hún hefur sinnt fræðslu- og uppeldishlutverki og þjónað landsmönnum öllum og þannig verið órjúfanlegur hluti af menningarlífi þjóðarinnar.Dagskrárgerð, hljóðritanir í hljóðveri eða af tónleikum er ómetnanleg skráning á sögu tónlistarlífsins á hverjum tíma og styrkir þannig sjálfsvitund okkar og sjálfstæði sem þjóðar. 

Beinar útsendingar frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru þjónusta við tónlistarunnendur um allt land og ómetanlegur þáttur í starfi RUV.

Með þeim niðurskurði sem nú hefur orðið á Rás 1 og uppsögnum lykilstarfsmanna hefur RUV brugðist hlutverki sínu og þjónustu við landsmenn.

Félag íslenskra tónlistarmanna – klassísk deild FIH hvetur stjórn RUV og útvarpsstjóra til að endurskoða þessar aðgerðir og láta ekki fjárhagsþrengingar bitna mest á því starfi RUV sem hefur sinnt menningu af metnaði og alúð og boðið til gleðistunda sem enginn annar sinnir.
Þessar aðgerðir eru aðför að menningarlífi þjóðarinnar.
-------------




Ísland er menningarþjóð. Við undirrituð vitum þetta vel af eigin reynslu. Við erum tónlistarfólk frá ýmsum löndum og úr ýmsum geirum tónlistar. Það sem við eigum sameiginlegt er að öll höfum við haldið eftirminnilega tónleika fyrir forvitna, víðsýna og menntaða áheyrendur á Íslandi. 

Við höfum miklar áhyggjur af framtíð Ríkisútvarpsins á Íslandi. Okkur hefur borist til eyrna að í síðustu viku hafi 39 verið sagt upp störfum samstundis og að hótað hafi verið enn fleiri uppsögnum. Rás 1, menningarrásin, hefur fengið harðasta skellinn, ekki síst tónlistardeildin. Af öllu starfsliði hennar eru nú aðeins tveir eftir. Framvegis verða þar engir sérfræðingar í barokktónlist, djassi eða samtímatónlist, enginn kynnir frá sinfóníutónleikum, enginn sérmenntaður tónmeistari til að hljóðrita klassískan tónlistarflutning. 


Allt frá því að Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930 hefur það verið meginstoð í íslensku menningarlífi. Það hefur sent út metnaðarfulla þætti og hljóðritað þúsundir tónleika. Hljóðritasafn Ríkisútvarpsins er ómetanleg heimild um tónlistarflutning á Íslandi á 20. og 21. öld. Við höfum öll verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með frábæru starfsfólki RÚV; þau hafa hljóritað og sent út tónleika okkar í Háskólabíói, Hörpu, Laugardalshöllinni og fleiri tónleikastöðum. Okkur þykir grátlegt að nú sé þessu metnaðarfulla starfi teflt í tvísýnu.

Við höfum fullan skilning á því að Ísland er í vanda statt hvað efnahag varðar. En við gerum okkur einnig grein fyrir því að RÚV hefur gegnt lykilhlutverki í íslensku þjóðlífi, verið „háskóli fólksins“, farvegur gagnrýninnar umræðu og hefur staðið vörð um hugsjón um upplýst, menntað samfélag. Hinn grimmilegi niðurskurður á Ríkisútvarpinu er ekki nauðsyn, heldur ákaflega misráðið val. Með brottrekstrinum er gerð atlaga að einni af meginstoðum íslensks tónlistarlífs. Þessi ákvörðun er til marks um forgangsröðun sem brýtur gegn lögbundnu hlutverki RÚV, þar sem kveðið er á um að stofnunin skuli uppfylla „menningarlegar þarfir“ íslensku þjóðarinnar. Við undirrituð hvetjum stjórn RÚV, Alþingi Íslendinga og menntamálaráðherra að beita sér í málinu þegar í stað. Heimurinn fylgist með ykkur.

Anthony Burr, klarínettuleikari
Benjamin Koppel, saxófónleikari
Damien Rice, tónskáld
Dave Douglas, trompetleikari
Gennady Rozhdestvensky, hljómsveitarstjóri 
Hilary Hahn, fiðluleikari 
John Abercrombie, gítarleikari 
Kiri Te Kanawa, söngkona 
Leif Ove Andsnes, píanóleikari 
Lennart Ginman, bassaleikari og tónskáld
Martin Fröst, klarinettuleikari
Mezzoforte
Nico Muhly, tónskáld 
Osmo Vänskä, hljómsveitarstjóri
Pacifica strengjakvartettinn
Pekka Kuusisto, fiðluleikari 
Rumon Gamba, hljómsveitarstjóri 
Sigur Rós
Tord Gustavsen, píanóleikari og tónskáld
Viktoria Postnikova, píanóleikari 
Vladimir Ashkenazy, píanóleikari og hljómsveitarstjóri


-------------



Ályktun Rithöfundasambands Íslands
[04.12.13]

„Rithöfundasamband Íslands harmar stórfelldan og fordæmalausan niðurskurð á starfsemi Ríkisútvarpsins með fjöldauppsögnum og skertum fjárframlögum. Í öllum lýðræðisríkjum sem starfrækja ríkisfjölmiðla gegna þeir lykilhlutverki í að viðhalda auðugri menningarumfjöllun og standa vörð um hlutlæga og faglega upplýsingagjöf.

Í yfir áttatíu ár hefur Ríkisútvarpið lagt sérstaka rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Kappkostað hefur verið að hver einasti Íslendingur óháð búsetu hafi sem bestan aðgang að faglegum fréttum og fjölbreyttri afþreyingu auk vandaðrar umfjöllunar um listir og fræði. Ríkisútvarpið hefur verið í fararbroddi við að veita víðtæka almenna fræðslu og gera sérstök skil málefnum lands og þjóðar í þeim tilgangi að tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag, sem og umheiminn. Ríkisútvarpið hefur ævinlega reynt að hafa í heiðri grundvallarreglur lýðræðis og mannréttinda og standa vörð um frelsi til orða og skoðana.

Ráðamenn íslenska ríkisins og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa með óvægnum aðgerðum sínum ráðist að gríðarlega mikilvægri kjarnastarfsemi í menningarumfjöllun þjóðar sem hefur arfleifð og tungumál að vernda. Stórfelldur og harkalegur niðurskurður af því tagi sem íslensk stjórnvöld hafa nú beitt Ríkisútvarpið ógnar bæði lýðræðislegri umræðu og málfrelsi. Tjáningarfrelsinu er hætta búin, íslenskri tungu er hætta búin, listsköpun er hætta búin. Hér er um að ræða aðför að menningu heillar þjóðar sem má ekki lýðast.

Við fordæmum þessa forkastanlegu aðför að þjóðarmiðli Íslendinga, Ríkisútvarpi- og sjónvarpi, og krefjumst þess að aðgerðirnar verði dregnar til baka.“

F.h. stjórnar Rithöfundasambands Íslands,
Kristín Steinsdóttir, formaður
-------------





„Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur frá upphafi átt náið og gefandi samstarf við Ríkisútvarpið. Þessar tvær stofnanir eru í reynd systurstofnanir, ekki aðeins er saga þeirra samtvinnuð – heldur starfa þær að mörgu leyti eftir líkum grundvallarhugsjónum.

Sinfóníuhljómsveitin er þjóðarhljómsveit Íslendinga, og Ríkisútvarpið einn af helstu hornsteinum íslenskrar menningar. Það er sá miðill sem finnur allri flóru menningarlífsins sinn stað, sinn tíma. Útvarpið hefur verið eins og gluggi Sinfóníuhljómsveitarinnar út í samfélagið. Ríkisútvarpið hefur tekið upp og sent út tónleika hljómsveitarinnar ásamt fjölda tónverka, ekki síst íslensk verk, gömul og ný. Útvarpið hefur skrásett, miðlað og varðveitt þessa tónlist og þannig auðgað menningarlíf allrar þjóðarinnar. Fjölmörg glæsileg, ógleymanleg augnablik með hljómsveitinni og einleikurum, hefur útvarpið sent út beint og varðveitt fyrir komandi kynslóðir. Oft hafa tónleikar hljómsveitarinnar verið sendir út um gjörvalla Evrópu sem okkar framlag í samstarfi við Evrópusamband útvarpsstöðva og vakið þannig athygli á landi og þjóð. Jafnframt hefur leikur hljómsveitarinnar gjarnan skipað öndvegissess í hátíðardagskrá Rásar 1.

Nú er harkalega vegið að Ríkisútvarpinu og stofnuninni því sem næst gert ókleift að sinna lögboðnu hlutverki sínu í menningarmálum. Að kasta fyrir róða því starfi sem unnið hefur verið á Ríkisútvarpinu í þágu íslenskrar tónlistar, er sóun en ekki sparnaður. Það myndi stía Sinfóníuhljómsveit Íslands frá öllum þeim fjölda landsmanna sem nýtur hennar á öldum ljósvakans og þeim sem vegna búsetu eða af öðrum ástæðum eiga erfitt með að sækja tónleika. Hver eru hin raunverulegu verðmæti, menningin eða peningarnir?“
-------------



Yfirlýsing frá Jazzhátíð Reykjavíkur
[04.12.13]

Jazzhátíð Reykjavíkur harmar þá atlögu sem gerð er að tónlistarlífi á Íslandi með niðurskurði á dagskrá í Ríkisútvarpinu.

Það var þulur Ríkisútvarpsins sem opnaði heim jazzins fyrir Íslendingum fyrir margt löngu og þessi óhemja sem spunamúsíkin er, hefur alla tíð síðan gegnt mikilvægu hlutverki í dagskrá útvarpsins, td sem sáttasemjari í samlífi léttrar og þungrar tónlistar.

Rás 1 hefur verið mikilvægur bandamaður Jazzhátíðar Reykjavíkur frá 1990 (enda hátíðin til komin að undirlagi starfsfólks útvarps) og lagt sig fram um að miðla til landsmanna dagskrá sem endurspeglar það besta sem í boði er á hátíðinni hverju sinni. Ekki má heldur gleyma því mikilvæga útbreiðslustarfi sem felst í að gera tónlist íslenskra listamanna aðgengilega fyrir Evrópu alla. Þessu getur enginn sinnt betur en Ríkisútvarpið.

Varla þarf að minna á hversu alvarleg blóðtaka það er fyrir alla tónlist í landinu að missa vikulegan þátt um jazzmúsík þar sem af mikilli alúð hefur verið fjallað um nýjasta nýtt af innlendum vettvangi og það sett í samhengi við alþjóðlega strauma og stefnur.

Músík er einhver mikilvægasta auðlind þjóðarinnar og það er ótvíræð skylda Ríkisútvarps að sinna áfram af krafti endurnýjun hennar.
-------------




Í þeim niðurskurði sem nú er hafinn hjá RUV er það dagskrá Rásar 1. sem mest er skorin niður, eða um 50% samkvæmt fréttum. Sérstaða RUV á vettvangi fjölmiðlunnar hefur fyrst og fremst falist í dagskrá Rásar 1, mest allt annað dagskrárefni má einnig finna hjá einkareknum útvarps og sjónsvarpsstöðvum, sumt í miklu úrvali.

Hlustendahópur Rásar 1 er einnig einstakur. Í þeim hópi er mikið af eldra fólki. Blint og sjónskert fólk hefur í gegnum árin reitt sig á dagskrá Rásar 1 og aðgengi þess að upplýsingum og menningartengdu efni er stórlega skert með þessum niðurskurði á dagskrá Rásar 1. Eð eins og einn áhyggjufullur félagsmaður skrifaði til stjórnar félagsins um leið og hann kallaði eftir að félagið léti í sér heyra um málið:
Hún (Rás 1) virkar fyrir okkur ekki aðeins sem afþreying heldur ekki síður sem fastur punktur í tilverunni og er sá vettvangur þar sem við getum fengið upplýsingar um það sem er að gerast í samfélaginu frá degi til dags.Þetta á ekki síst við okkur sem getum ekki af ýmsum ástæðum farið á netið til þess að fræðast um menn og málefni, atburði og uppákomur og annað sem er á döfinni .Þetta er jafnvel eina leiðin fyrir mörg okkar til þess að fylgjast með í samfélaginu.Ég get ekki séð að nein  önnur útvarpsstöð muni taka við þessu.
Í 1. grein laga um RUV ohf segir:

"Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð."

Að mati stjórnar Blindrafélagsins er það ekki síst dagskrá Rásar 1 sem hefur stuðlað að því að RUV hefur uppfyllt skyldur sínar eins og mælt er fyrir í 1. grein laga um stofnunina. Það er því skoðun stjórnarinnar að þessi mikli niðurskurður á dagskrá Rásar 1 geti gert það að verkum að RUV uppfylli ekki lengur þær lagalegu skyldur sem stofnuninni eru lagðar á herðar.

Af þeim sökum mótmælir stjórn Blindrafélagsins harðlega þessum mikla niðurskurði á dagskrá Rásar 1. Um leið þá er það ýtrekað að þessi niðurskurðaraðgerðir mun fyrst og fremst bitna á hlustendahóp sem ekki hefur sama val um að nýta sér aðra fjölmiðlun. Þarna er höggvið þar sem hlífa skyldi.
-------------



„Með þeim breytingum og niðurskurði sem gerðar hafa verið á starfsemi tónlistardeildar Rásar 1 nú fyrir skömmu er ljóst að starfsemi RÚV muni verða fyrir verulegum skakkaföllum. Stofnuninni verður gert nær ómögulegt að sinna því mikilvæga menningarlega hlutverki sem hún hefur sinnt á undaförnum árum og áratugum. Sú þögn sem mun myndast í íslensku tónlistarlífi við þessar breytingar mun verða í framtíðinni vitnisburður um þá menningarstjórnun  sem á sér stað í dag í tengslum við Ríkisútvarpið – vitnisburður um skilningsleysi þeirra sem sitja í stjórnunarstöðum í þjóðfélaginu á mikilvægi íslenskrar menningar í dag  fyrir almenning á sviði tónlistar. Í stjórn Samtóns sitja fulltrúar alls tónlistarfólks á Íslandi og er það skýlaus krafa þeirra að stjórnvöld og stjórnendur RÚV dragi til baka þessar aðgerðir og geri RÚV - útvarpi allra landsmanna – kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki áfram á sviði menningar, varðveislu  og upplýsingamiðlunar -  sem það hefur sinnt allar götur frá árinu 1930.
-------------



[28.11.13]

Félag fréttamanna mótmælir harðlega uppsögnum og boðuðum niðurskurði á Ríkisútvarpinu. Ríkisstjórnin fetar í fótspor tveggja fyrri ríkisstjórna sem skáru sleitulaust niður í rekstri Ríkisútvarpsins og gerir stofnuninni, og þar með fréttastofunni, enn erfiðara að sinna sínu lögbundna hlutverki. Niðurskurðurinn nálgast nú fjórðung á þeim árum sem liðin eru frá hruni.

Starfsmenn Fréttastofu RÚV hafa unnið störf sín af fyllsta metnaði þrátt fyrir þann niðurskurð sem á hefur dunið og mælingar hafa ítrekað sýnt að fréttastofan nýtur mests trausts íslenskra fjölmiðla. Með þessum niðurskurði dregur úr þjónustu,  fréttatímum fækkar og þeir styttast, og fréttavinnsla á vefnum dregst saman. Sérstaklega harma félagsmenn að næturfréttir séu slegnar af, sem rýrir öryggis- og almannavarnaþátt RÚV til muna.

Þetta er í fjórða sinn á rúmum fimm árum sem stór uppsagnahrina dynur á fréttastofunni og stofnuninni í heild og óvíst er að allt sé búið enn. Það er óþolandi fyrir starfsfólk að búa við þá óvissu sem þetta veldur og hún hefur veruleg áhrif á störf þess. Með þessum niðurskurði versna starfsskilyrði fréttamanna og færri sjá framtíð í fréttamennsku.

Félag fréttamanna minnir á að samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið á það að  „stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda, félaga og fyrirtækja sem hafa áhrif á hag almennings.“ Og í stefnu RÚV, sem stór hluti starfsmanna tók þátt í að móta, segir: „Tryggt verður að Fréttastofa RÚV hafi vettvang í dagskrá útvarps, sjónvarps og á vefnum til að sinna bæði daglegri fréttaþjónustu og kryfjandi fréttaskýringum.“ Stöðugur niðurskurður er ekki til þess fallinn að auðvelda RÚV að uppfylla þessi ákvæði.

Félag fréttamanna skorar á stjórnvöld að draga fyrirhugaðan niðurskurð til Ríkisútvarpsins til baka og að Ríkisútvarpinu verði gert kleift að sinna hlutverki sínu án þess að búa við stöðuga óvissu.

Við minnum á að í Skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir:
Ábyrgð fjölmiðla sem fjórða valdsins er mikil en þar hlýtur ábyrgð Ríkisútvarpsins að vega þyngst. Mikilvægt er að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Þá verður að gera þá kröfu á hendur Ríkisútvarpinu að það beiti sér öðrum fremur fyrir vandaðri rannsóknarblaðamennsku.
Í nefndinni sátu Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Atli Gíslason og Magnús Orri Schram.
-------------



„Ríkisútvarpið er ein allra mikilvægasta stofnun lýðveldisins Íslands. Og gott betur því um átta áratuga skeið hefur hún verið einn af burðarásum menningarlífsins, atkvæðamikil í mótun sjálfsvitundar okkar, áttaviti og staðsetningartæki. Sérstaða Ríkisútvarpsins er að þessu leyti alger í flóru íslenskra fjölmiðla. Það er því með nokkrum ólíkindum ef stjórnvöld ætla að láta viðgangast þann niðurskurð sem nú hefur verið boðaður þar sem höggva á stór skörð í mannaflann og hola innan dagskrána.

Við undirrituð viljum mótmæla þessum gerningi og hvetjum þingheim til að afturkalla hann hið bráðasta og búa svo um hnúta að Ríkisútvarpinu verði áfram gert kleift að sinna lögboðnu menningar- og fræðsluhlutverki sínu.

Það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú.“

Andri Snær Magnason, rithöfundur
Björn Th. Árnason, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna
Guðrún Kvaran, prófessor
Gunnar Guðbjörnsson, formaður Félags íslenskra tónlistarmanna
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndargerðarmanna
Hrafnhildur Sigurðardóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna
Jakob Frímann Magnússon, formaður Félags tónskálda og textahöfunda
Jón Páll Eyjólfsson, formaður Félags leikstjóra á Íslandi
Kjartan Ólafsson, formaður Tónskáldafélags Íslands
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna
Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur
Kristín Jóhannesdóttir, leikstjóri
Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands
Kristján Árnason, prófessor
Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda
Pétur Gunnarsson, rithöfundur
Ragnar Bragason, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra
Randver Þorláksson, formaður Félags íslenskra leikara
Rebekka Ingimundardóttir, formaður Félags leikmynda- og búningahöfunda
Sigríður Melkorka Magnúsdóttir, formaður Félags íslenskra listdansara
Sigríður Ólafsdóttir, formaður Arkitektafélags Íslands
Sigurður Pálsson, rithöfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir, rithöfundur
Sveinn Einarsson, leikstjóri
Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi Forseti Íslands
Þorbjörn Broddason, prófessor