Mugison - Kæru stjórnmálamenn. Hættið að rugla í RÚV (Fb. 08.12.2014)

Kæru Stjórnmálamenn. Hættið að rugla í RÚV, það er búið að vera í hengiflugi síðustu ár, sem er óþolandi fyrir starfsmenn þess og okkur sem eigendur. Stuðningur RÚV við grasrótina í listum er nauðsynlegur á þessu littla landi. Ég þekki það á eigin skinni; Frá 2002 - 2004 þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem tónlistarmaður var RÚV eini sjónvarps og útvarpsmiðillinn sem fjallaði um mig, það var ekki fyrr en Guðni Már og Óli Palli gerðu hittara úr lagi mínu, Murr Murr, að aðrir tóku við sér.

Beinar útsendingar og umfjallanir um hátíðir eins og Iceland Airwaves, Aldrei Fór ég Suður, Bræðsluna og Listahátíð Reykjavíkur geta aldrei staðið undir sér. Mér finnst nauðsynlegt að við stöndum vörð um þessi verðmæti, þessa menningu. Það verður að vera til staður sem tekur á móti Skúla Þórðarsyni, DJ Flugvél og Geimskip, Daníel Bjarna, FM Belfast, Friðriki Ómar, Skálmöld, Kristni Sigmunds, Magna, Kiru Kiru, Ham, Röggu Gísla, Bubba Morteins, Fufanu, Valdimar, Sigur Rós, Ylju, Björk og Bó. Það verður að vera til þessi miðstöð sem tengir okkur listamenn við fólkið í landinu og styður grasrótina áfram fyrstu skrefin.