Arnar Eggert Thoroddsen - Popp bjargar mannslífum (Morgunblaðið. 06.11.2014)

Umræðan um ríkisreknu fjölmiðlana hefur hreyft nokkuð við mér að undanförnu. Tal um að hola þessar stofnanir að innan, selja eða leggja niður kemur ekki á óvart þegar grjóthörð hægri stjórn fer með völd og því brýnt að „gáfnaljós á vinstri vængnum“ láti nú að sér kveða. Svo ég ræði um það sem snýr að mínu sérsviði, dægurtónlistinni, er ljóst að Sjónvarpið, Rás 1 og Rás 2 vinna öll sérstaklega mikilvægt starf hvað varðar þá eðlu list í íslensku tilliti, hvort sem er í formi kynningar, varðveislu eða almennrar næringar og uppbyggingar.

Popp er menning

Ummæli Karls Garðarssonar alþingismanns um Rás 2 í síðasta mánuði (2. október í DV) lýsa þess vegna ævintýralegri skammsýni en ég er hræddur um að fleiri – þótt ótrúlegt sé – taki í svipaðan streng. „Hvort skiptir okkur meira máli að hlusta á dægurtónlist á Rás 2 eða bjarga mannslífum?“ spurði Karl en var þó á því að menning væri nauðsynleg (?). Dægurtónlistinni væri hins vegar ágætlega sinnt af einkaaðilum og „það sama gildir um ameríska sápuóperu og annað slíkt“. Útgangspunkturinn er þessi: popp er ekki menning heldur merkingarsnautt drasl sem hefur lítið að segja. Nú er skilningur á því að popp sé vissulega menning hins vegar orðinn giska almennur og velferðarrannsóknir sýna að öflugt tónlistarlíf, hvort heldur í gegnum tónlistarnám, bílskúra, útvarpssenda eða afspilunarform ýmiskonar stuðlar að góðri lýðheilsu. Fjárhagslega veltir íslenski dægurtónlistarbransinn þá miklum fjárhæðum og ég þarf ekki að fjölyrða um afrek landans á því sviðinu á erlendri grundu, árangur sem heldur áfram að ýta undir mikinn og lifandi áhuga á öllu því sem íslenskt er (sem skilar sér svo í beinhörðum peningum í ríkiskassann í gjaldeyristekjum o.s.frv.). Þetta hef ég t.d. orðið verulega var við í fræðasamfélaginu hér úti í Edinborg. Dægurtónlistin okkar, eins og staðan er í dag, er gulls ígildi. Það er merkilegt hvað þessi einfalda heildarmynd flækist fyrir ráðamönnum landsins og það sýknt og heilagt. Viðlíka staðreyndir blasa hins vegar við stjórnvöldum hér í Bretlandi og það þó að einkavæðingin standi þeim töluvert nær en fyrri ríkisstjórnum. Menn gera sér þrátt fyrir það skýra grein fyrir hlutverki BBC, vissulega eru hártoganir um stefnu og slíkt en almenn samstaða ríkir um grunninn.

Alltaf gróði

Ríkismiðlar geta nefnilega leyft sér, eðlis síns vegna, að hlúa að hlutum sem hafa gildi í sjálfum sér, gildi sem rúmast ekki svo auðveldlega í excel-skjali. Gróðinn af því starfi – heilsufarslegur, fjárhagslegur, menningarlegur – sýnir sig þó alltaf á endanum en einungis, og þetta er mikilvægt, ef fólki er veitt það sjálfsagða svigrúm að sinna því starfi af sóma. Það þarf því ekki ýkja mikið hyggjuvit til að sjá að þegar allt kemur til alls þá bjargar popp mannslífum.
Höfundur er doktorsnemi í tónlistarfræðum við Edinborgarháskóla og tónlistarblaðamaður.