Kolbrún Bergþórsdóttir - Skjaldborg um RÚV (Mbl .30.10.2014)

Einkennileg herferð stendur yfir gegn RÚV, þar sem menn, aðallega á hægri væng stjórnmála, beita sér mjög og viðhafa stór og sterk orð um stofnunina og jafnvel má skilja af orðum þeirra að þeir telji RÚV óþarfa stofnun. Meginþorri þjóðarinnar er örugglega ekki á sama máli.
RÚV er mikilvæg menningarstofnun sem sinnir hlutverki sínu af miklum metnaði. Sú sem þetta skrifar ólst upp við RÚV og hlaut í gegnum Rás 1 menningarlegt uppeldi sem hún verður ævinlega þakklát fyrir. Þeir sem harðast gagnrýna RÚV ættu að horfa aftur til æskuáranna og rifja upp kynni sín af RÚV. Geri þeir það má ætla að klakinn sem þeir geyma í brjósti sér gagnvart stofnuninni muni bráðna og kalt hjarta þeirra taki að hlýna. Hver er ekki þakklátur fyrir útvarpsleikrit, síðdegissögur, ljóðaflutning, Sinfóníutónleika, útvarpsmessur, bænir, upplestur á Passíusálmum, síðasta lag fyrir fréttir? – og svo mætti lengi halda áfram að telja, en plássið leyfir það ekki. Halda þessir háværu, en sennilega fámennu gagnrýnendur, að þessi dagskrá myndi sjálfkrafa flytjast á aðra fjölmiðla yrði RÚV gert óstarfhæft?
Stundum heyrist sagt að innlend dagskrárgerð á RÚV sé nokkuð sem aðrar útvarps- og sjónvarpsstövar geti auðveldlega sinnt. Ekki sýnist manni nú að svo sé, og ekki verður vart við sérlegan menningarlegan áhuga hjá forsvarsmönnum annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva, þótt vafalaust muni þeir gala hátt í mótmælaskyni við þessa fullyrðingu.
Það má sannarlega deila um dagskrá RÚV og það hafa menn líka óspart gert. Undirrituð er til dæmis ósköp mædd yfir því að síðasta lag fyrir fréttir sé ekki á réttum stað í dagskrá, en breyting var gerð til að fá meiri pening í kassann – það veitir víst ekki af því hjá RÚV. Líka má velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að hafa á dagskrá RÚV þætti sem hafa litla sem enga hlustun eða nær ekkert áhorf. Það ættu ekki að teljast helgispjöll að taka þá af dagskrá og setja aðra í þeirra stað.
Menntamálaráðherra landsins er menningarlega sinnaður og ekki verður öðru trúað en að hann vilji veg RÚV sem mestan. Fjárhagsvandi RÚV er mikill og hann þarf að leysa. Það verður hins vegar ekki gert með því að lama merka menningarstofnun. Hluti af sanngjarnri lausn hlýtur að vera að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið til sín að fullu, en ekki einungis hluta þess. Gömul lífeyrisbyrði mun svo vera baggi á stofnuninni. Þá er að losa stofnunina undan því.
Hér skal fullyrt að þjóðinni þyki vænt um RÚV. En stundum nægir ekki að hýsa hlýjar tilfinningar í hjarta sínu heldur þarf einnig að finna þeim orð. Íslendingar eiga að slá skjaldborg um RÚV og þakka fyrir að eiga stofnun sem sinnir menningarhlutverki sínu af sönnum metnaði. kolbrun@mbl.is
Kolbrún Bergþórsdóttir