Árni Johnsen: Treystum Ríkisútvarpið til metnaðar og möguleika (Morgunblaðið. 11.10.2014)

Grundvöllurinn fyrir hverja þjóð til þess að halda saman og eflast og dafna hamingjusamlega er að eiga eitthvað sameiginlegt, eitthvað sem dugar bæði í sókn og vörn. Það er auðvelt að telja upp helstu atriðin í þessum efnum sem við Íslendingar eigum sameiginleg. Við eigum sjálfstæði Íslands, við eigum íslenska tungu, Háskóla Íslands og skólakerfið í öllum sínum myndum, heilbrigðisþjónustuna með Landspítalann sem móðurskip. Við eigum kirkjuna, Ríkisútvarpið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið og svo margt sem á að skapa farveg fyrir sanngirni og framsækna hugsun, verkmenntun og verkvit og listræn tilþrif okkar sameiginlega þjóðfélags.
Nú hallar á Ríkisútvarpið sem er sú sameiginlega stofnun okkar sem er í nánustu sambandi við landsmenn almennt dags daglega. Það fer ekkert á milli mála að landsmönnum finnst þeir eiga Ríkisútvarpið og í ljósi þess er skylt að verja stöðu þess svo mannsæmandi sé með metnaði. Dagskrárgerð Ríkisútvarpsins er mögnuð og menningarleg og þolir ríflega samanburð við helstu sambærilegu útvarpsstöðvar í heiminum þótt gagnrýni og skiptar skoðanir hlustenda séu jafnan fylgifiskur. Þannig er Ríkisútvarpið daglegur gerandi í atvinnulífi okkar, menningu og þjóðlífi almennt, eitt af ankerum sem sjálfstæð lítil þjóð má ekki án vera og í rauninni miklu mikilvægari hlekkur en við gerum okkur almennt grein fyrir. Það sem sameinar okkur á breiðum grunni og límir okkur saman sem þjóð verður að styrkja. Annars verðum við eins og rekald fyrir veðri og vindum.
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur sagt að afnotagjöld af útvarpinu í heilu lagi ættu að duga til að halda sjó og snúa vörn í sókn.
Þess vegna er ástæða til þess að hvetja menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og ríkisstjórnina alla til þess að láta afnotagjöldin renna óskipt til Ríkisútvarpsins og tryggja það jafnframt að uppsafnaður fjármálavandi útvarpsins verði spúlaður burt. Það verður að vera eðlileg vinnuaðstaða á dekkinu. Þetta skiptir miklu máli í endalausri baráttu fyrir sjálfstæði Íslands. Vandi Ríkisútvarpsins í dag, „ eignar landsmanna“, er bráðavandi og þá duga engin vettlingatök frekar en fyrri daginn í okkar landi.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.