Benedikt Erlingsson: Þetta er auðvitað allt fréttastofunni að kenna. (Ræða á Austurvelli, 12.12.2014)

Góðir fundarmenn

Það sem mig langar að deila með ykkur er persónulegt . Það snýst um þann þátt Ríkisútvarpsins sem kallast Sjónvarp. Það er draumsýn um Sjónvarpið okkar. Draumurinn um hvað gott sjónvarp í almannaeigu gæti verið og gæti gert.

Ég tilheyri þeim hópi sem á sér draum um gott íslenskt sjónvarp. Kannski af því að ég hef kynnst sjónvarpi í almannaeigu á öðrum Norðurlöndum.

Þessi draumur var endurvakinn með nýjum útvarpstjóra og rísandi landi.

En nú átta ég mig á því að ég deili þessum draumi með allt of fáum. Alla vega ekki meirhluta þingheims.

Nú vakna ég upp við gamalkunnan veruleika.

Haltrandi og hálflamað sjónvarp, sem reynir af vanmætti en
góðum vilja, að vera menningarlegt félagsheimilli þjóðarinnar en er aldrei meira en ágætis fréttastofa á hlaupum, með íþrótta- og skemmtiefni í bland við erlendar sápur héðan og þaðan eins og verkast vill og einstaka mýraljósi hér og þar þegar vel tekst til …svona annað hvert ár. (Takk fyrir Orðbragðið)

Þetta er það sem við höfum alist upp við og flest þekkjum við ekki annað úr þessari átt.

Draumurinn um fæðingu íslenska sjónvarpsins, alvöru Sjónvarps með massívri innlendri dagskrárgerð. Íslenskt sjónvarp stútfullt af íslenskum heimildamyndum og leiknu efni.
Sjónvarp með greinandi umfjöllun rannsóknarblaðamanna sem hafa tíma til að vera það sem þeir eiga að vera: sérfræðingar. Draumurinn um sjónvarp sem menntar og skemmtir en SKEMMTIR alltaf fyrst.

Þessi draumur er ei meir. Hann rætist ekki úr því sem komið er. Kannski ekki fyrr enn eftir hálfan eða kannski heilan áratug. Ef hann rætist þá yfir höfuð.

Í straumkasti hinnar stafrænu byltingar höfum við misst af bátnum sem fleytt gæti okkur yfir þessar miklu beytingar og nú verðum við hrifin með. Hugmyndin um eina sjónvarpstöð sem félagsheimilli lítilar örþjóðar með örlitla tungmálið sitt er líklega glötuð.

En hvers vegna?

Hversvegna þarf þá að sparka í Ríkisútvarpið núna. Skera á háls myndi orðjótari maður en ég jafnvel segja.

Jú einhvers staðar innst inni vitum við öll hvað liggur þarna að baki.


Þetta er auðvitað allt fréttastofunni að kenna.

Við höfum öll tekið eftir því hvernig fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur tekið þátt í „ljótum pólitískum leik“ ásamt öðrum miðlum og nokkrum óþekkum stofnunum eins og Umboðmanni Alþingis og Ríkissaksóknara. Ekki bara það, heldur hefur fréttastofan beinlínis tekið þátt í „loftárásum“ á saklaust fólk eins og alkunna er. Verið staðin að verki við að taka virðulega ráðherra á beinið með dónalegum spurningum.
Auðvitað bera fórnarlömbin hönd fyrir höfuð sér þegar endurtekið er á þá ráðist.
Þetta er staðan hjá okkur í upphafi 21. aldar. Eina fréttastofan sem er ekki í einkaeign. Fréttastofan sem við eigum öll saman og á að halda uppi hugsjónum fjórða valdsins. Sú fréttaveita sem nýtur mest traust landsmanna og á að veita sjórnvöldum aðhald og hefur svo sannarlega gert það. Þessi fréttastofa og öll menningarstofnunin: Ríkisútvarpið sjálft er nú komin í gapastokk meirhlutans. Stjórnmálamanna sem finnst að sér vegið . Nú er refsivöndurinn reistur og kutinn brýndur.
Og hvað gerum við eigendurnir?
Hvað finnst okkur um þetta?
Hvað getum við gert?

Benedikt Erlingsson. 

Ræða flutt á samstöðufundi á Austurvelli 12. desember 2014.