Árni Matthíasson - Rætur íslenskrar menningar (Mbl. 10.12.2014)

Hugsanlega er ég vanhæfur þar sem ég ólst upp með Ríkisútvarpinu, enda var afi minn tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins og móðir mín þýddi og skrifaði barnaefni sem þar var birt. Ég lék líka í barnatímum á hennar vegum (þar til við bræðurnir heimtuðum kauphækkun og vorum reknir með það sama), þýddi bók fyrir útvarpið um stjörnufræði þegar ég var unglingur (en gat ekki lesið þar sem ég var í mútum) og var síðar með tónlistarþætti á Rás 2 fyrir tveimur áratugum eða svo.
Nú vill svo til að ég er mjög áhugasamur um tónlist og þá allar gerðir tónlistar nema kannski þýska schlager-tónlist. Þann áhuga rek ég annars vegar til þess að ég ólst upp á heimili þar sem sígild tónlist var í hávegum og svo líka vegna þess að ég ólst upp við Ríkisútvarpið. Á æskuárum mínum var það einsog hafið yfir gagnrýni, eða í það minnsta man ég ekki eftir því að neinn hefði hallmælt því nema þá vegna þess að það væri ekki nóg spilað af harmonikkutónlist. Þegar ég eltist sá ég þó ýmsa vankanta, ekki síst þann að í útvarpinu mátti ekki heyra neina tónlist sem þótti ófín, enga hóruhúsatónlist eins og mætur útvarpsmaður sagði við mig um djass fyrir langa löngu. Þar eimdi náttúrlega eftir af því að í árdaga útvarpsins töldu menn það hlutverk sitt að mennta fólk og uppfræða, hvort sem því líkaði það betur eða ver.
Með tímanum létu forsvarsmenn útvarpsins undan kalli tímans og settu á stofn útvarpsrás sem spila skyldi tónlist fyrir unga fólkið. Það var reyndar of seint fyrir mig, því ég var ekki lengur meðal unga fólksins þegar hér var komið sögu og hafði lítinn áhuga á þeirri tónlist sem þá var efst á baugi. Þrátt fyrir það hefur Rás 2 verið sá staður þar sem ég hef komist í nýja íslenska tónlist í gegnum árin, þar hafa verið þættir þar sem heyra má það sem nýjast er og forvitnilegast, eins og til að mynda sú frábæra þáttaröð Langspil sem spilar allskonar nýja íslenska tónlist.
Í þeirri sérkennilegu umræðu sem nú stendur um Ríkisútvarpið og hlutverk þess eru háværar raddir hægrimanna sem telja það goðgá að ríkið sé að halda úti útvarps- og sjónvarpsstöð og fréttavef að auki. Vissulega má taka undir það að þörfin fyrir Ríkisútvarp hefur breyst á liðnum árum og svo mikið að sjálfsagt er að endurskoða sitthvað í rekstri þess. Þeir dellumenn sem vilja aftur á móti leggja af ríkisútvarpið í nafni frelsis eru þó úti að aka eins og endranær.
Við Íslendingar töldum okkur svo mikla fjármálavitringa forðum að enginn stæði okkur á sporði, en í hruninu sem gekk yfir heiminn á síðasta áratug kom í ljós að það eina sem við gátum státað af var íslensk menning og Ríkisútvarpið hefur einmitt verið iðið við að næra íslenska menningu. Ef frjálshyggjumenn hefðu fengið að ráða ferðinni hefði ekkert verið eftir þegar fjármálastofnanir okkar hrundu. arnim@mbl.is
Árni Matthíasson