Hallgrímur Thorsteinsson - Leiftursókn öfgafólksins gegn RÚV (DV. 09.12.2014)

Ríkisútvarpið sætir grimmilegri og grímulausri pólitískri aðför um þessar mundir, líklega þeirri alvarlegustu sem dæmi eru um í langri sögu útvarps í almannaþágu á Íslandi. Aðförin miðar beinlínis að því að veikja fjárhagslega og menningarlega stöðu RÚV til frambúðar. Nú skal látið sverfa til stáls.
Almenn nauðsyn til niðurskurðar hjá hinu opinbera á hörðum tímum eftirhrunsáranna er höfð að yfirskini, en það þarf ekki að rýna lengi í óbrenglaðar niðurstöðutölur úr rekstri RÚV síðustu ára til að sjá að sá samdráttur og aðhald sem þurfti í rekstrinum vegna kreppunnar hefur þegar orðið. Niðurskurðurinn sem krafist er af RÚV núna með þeirri lækkun útvarpsgjaldsins sem framundan er verður því alfarið að skrifast á reikning pólitískra hefndarráðstafana frá ríkisstjórnarflokkunum.
Allar íslenskar ríkisstjórnir hægra megin við miðjuna hafa gegnum tíðina haft uppi einhverja tilburði í sömu átt þegar þær komast til valda, svo nánast hefur mátt tala um ósjálfrátt viðbragð í því sambandi. Útvarpslögum hefur verið breytt, fjárframlögum breytt eða seinkað og flokkshestum beitt fyrir vagninn til að sveigja hann inn á þóknanlegri brautir.
Allar slíkar ráðstafanir hafa vissulega haft tímabundin lamandi áhrif á starfsemi þjóðarútvarpsins en þessir leiðangrar hafa samt í rauninni aldrei náð að skila upphafsmönnum sínum tilætluðum árangri. Til þess hefur hugmyndin um útvarpsstarfsemi í almannaþágu og almenningseign einfaldlega staðið of sterkum rótum í lýðveldismenningunni.
Þegar grannt er skoðað er það augljóst að í hugum Íslendinga upp til hópa leikur alls engin vafi á gildi þess, að miðlað sé til almennings gömlum og nýjum menningarverðmætum án tillits til viðskiptasjónarmiða og haldið sé úti fréttaþjónustu og samfélgsrýni á forsendum almannahagsmuna, þar sem sérhagsmunir komi hvergi nærri. Allar viðhorfs- og skoðanakannanir staðafesta þennan hug til RÚV og jafnvel þeir stjórnmálamenn sem lagst hafa á gagnrýnisárarnar gegn Ríkisútvarpinu hafa fyrr eða síðar flestir þurft að horfast af heiðarleika í augu við þann sannleik, að á frjálsum markaði fyrirfinnast einfaldlega ekki innbyggðir hvatar til að þessum lýðræðislegu og menningarlegu þörfum sé þar fullnægt á viðskiptalegum forsendum. Það er hvort tveggja í senn einfeldningsleg tálsýn og pólitísk öfgahugsun.
Að telja fólki trú um annað getur því aldrei flokkast undir annað en pólitískan loddaraskap og þegar svo viðskiptalegir sérhagsmunir róa undir verður plebbahátturinn svo skínandi ber að fólki hrís hugur við.
Og þannig er því farið um yfirstandandi leifturárás myrkustu afla Sjálfstæðisflokksins gegn RÚV þar sem helstu hirðfífl Framsóknar spila með en sómakærari flokksmenn standa hjá þegjandalegir og rjóðir.
Þess vegna er það þeim mun athyglisverðara að þeir sem nú eru í þeirri óöfundsverðu stöðu að framfylgja útvarpslögum telja sig ekki hafa svigrúm innan þeirra til að framfylgja boðvaldi fjárlaga. Þó svo að núverandi stjórnarformaður RÚV hefði kannski glaður skrifað upp á skert framlög til RÚV í formannstíð sinni hjá Heimdalli eða SUS um árið þá stendur hann núna í baráttu fyrir því að almannaviljinn um stöðu RÚV sé virtur gegn freklegri niðurrifsstarfsemi öfgaafla í blóðmörstíð fjárlaganna.
Hann talaði skýrt í áskorun stjórnar RÚV til Alþingis fyrir viku: „Ef það er vilji Alþingis að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins og skyldum, þá er eðlilegt að fram fari umræða og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum áður en tekin er ákvörðun um að lækka útvarpsgjald.“
Það er verður forvitnilegur prófsteinn á lögstjórnina í landinu að sjá hvernig stjórnarformanni RÚV, SUS-formanninum með mastersgráðuna í lögum frá Columbia-háskólanum, vegnar í glímu sinni fyrir hönd almennings gegn pólitískum ofstækismönnum í eigin flokki.