Ingvi Hrafn Óskarsson - Rökþrot þingmanns? (Mbl. 11.12.2014)

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur að undanförnu sett fram hæpnar fullyrðingar um fjármál Ríkisútvarpsins. Hefur hann m.a. borið brigður á þá kunnu staðreynd, sem greint var frá í fréttatíma Ríkisútvarpsins, að Alþingi hefur jafnan ákveðið í fjárlögum að Ríkisútvarpið fái ekki útvarpsgjaldið óskert. Taldi fréttastofa Ríkisútvarpsins óhjákvæmilegt að árétta frétt sína um útvarpsgjaldið af þessu tilefni. Guðlaugur telur sig greinilega hafa fengið hirtingu sem undan svíður og krefst nú afsökunar frá Ríkisútvarpinu. Vandinn er hins vegar sá að á undanförnum vikum hefur Guðlaugur ítrekað farið með staðlausa stafi um fjármál Ríkisútvarpsins og beitt fyrir sig útúrsnúningum sem hvergi snerta kjarna málsins. Hann verður að sætta sig við að á það sé bent.
Talnaleikfimi sú sem Guðlaugur hefur borið á borð felst í því að vísa hálfan áratug, og lengra, aftur í tímann til þess að finna rökstuðning fyrir máli sínu. Guðlaugur burðast við að reikna út hver fjárframlög Ríkisútvarpsins voru fyrir árið 2009, með mistækum árangri, eins og það hafi nokkra einustu þýðingu fyrir umræðu um þá stöðu sem nú er uppi. Á meðan eru staðreyndirnar sem máli skipta nærtækar og skýrar; á síðastliðnum fimm árum hefur um 1.650 milljónum af innheimtu útvarpsgjaldi verið ráðstafað til annarra verkefna hins opinbera.
Einkennilegast er þó að Guðlaugur bregst ekki við áréttingu Ríkisútvarpsins með því að draga fram staðreyndir málsins, t.d. með því að leggja fram upplýsingar úr fjárlögum undangenginna ára. Þess í stað kveður hann Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðaherra, til vitnis í málinu, þar sem Steingrímur mun einhvern tímann hafa sagt eitthvað svipað og hann sjálfur. Það virðist að mati þingmannsins vera fullnægjandi grundvöllur fyrir kröfu hans um afsökun.
Hlýtur að teljast nokkurt nýnæmi að þingmaður Sjálfstæðisflokksins leggi slíkt traust á yfirlýsingar og upplýsingar frá Steingrími J. Fram til þessa hefur traust milli þingmannanna tveggja ekki virst gagnkvæmt. Það skyldi þó ekki vera að Guðlaugur grípi þetta síðasta hálmstrá þegar rökþrot blasir við?
Höfundur er lögmaður og formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf.