Ægir Þór Eysteinsson - Blóðugasti niðurskurður í sögu RÚV framundan (Kjarninn. 13.12.2014)

Stjórn RÚV í heild sinni, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, og framkvæmdastjóri félagsins mættu á fund fjárlaganefndar Alþingis síðdegis í gær. Á fundinum ítrekaði stjórn RÚV ósk sína að fallið yrði frá fyrirhugaðri lækkun útvarpsgjaldsins, svo hægt verði að tryggja áframhaldandi starfsemi félagsins. Að óbreyttu stefnir í blóðugasta niðurskurð í sögu RÚV. Kjarninn hefur heimildir fyrir því hvað fram fór á fundi fjárlaganefndar, þar sem nefndin leitaði upplýsinga um hvaða áhrif fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins myndi hafa á rekstur RÚV. Á fundinum brugðu fulltrúar RÚV upp mynd af umfangi þess niðurskurðar sem félagið stendur frammi fyrir að óbreyttu.
Á sama tíma og stjórn RÚV ræddi við fjárlaganefnd komu nokkur hundruð manns saman á Austurvelli til að krefjast þess að stjórnvöld falli frá lækkun útvarpsgjaldsins.

Árlegur niðurskurður upp á 700 milljónir

Að óbreyttu mun útvarpsgjaldið lækka um áramótin úr 19.400 krónum niður í 17.800 krónur, og svo aftur 1. janúar árið 2016 niður í 16.400 krónur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 fær félagið 3,5 milljarða króna úr ríkissjóði til rekstursins, sem er 119 milljónum króna meira en á yfirstandandi ári til að mæta verðlagsbreytingum. Þá fær félagið aukaframlag upp á 181 milljón króna úr ríkissjóði, með skilyrðum þó, meðal annars að vaxtagreiðslur RÚV verði lækkaðar.
„Samkvæmt heimildum Kjarnans gerir rekstraráætlun RÚV ráð fyrir að fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins muni leiða til nauðsynlegs niðurskurðar í rekstri félagsins fyrir hátt í 700 milljónir króna á ári.“
Með lækkun útvarpsgjaldsins um áramótin er hins vegar áætlað að ríkissjóður verði af um 300 milljónum króna. Eins og fram hefur komið er RÚV yfirskuldsett, að megninu til vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga, og getur ekki staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gerir rekstraráætlun RÚV ráð fyrir að fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins muni leiða til nauðsynlegs niðurskurðar í rekstri félagsins fyrir hátt í 700 milljónir króna á ári. Rekstraráætlunin hefur verið yfirfarin af óháðum aðilum, að því er heimildir Kjarnans herma.
Til að rétta af efnahag félagsins undirbýr RÚV nú sölu á lóðinni við útvarpshúsið við Efstaleiti, sem borgarráð Reykjavíkur samþykkti nýverið að skipuleggja undir íbúðabyggð. Til stendur að nota söluandvirðið til að borga niður skuldir félagsins, og þá er einnig til skoðunar að selja útvarpshúsið sjálft. Ingvi Hrafn Óskarsson stjórnarformaður RÚV og Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, hafa sagt að óskert og óbreytt útvarpsgjald myndi standa undir rekstri félagsins, gangi fyrirhuguð eignasala eftir. Fram hefur komið að þrátt fyrir sölu á eignum RÚV, þarf félagið óbreytt útvarpsgjald til að standa undir lögbundnum skyldum sínum.

Þjóðin mun finna verulega fyrir skertri þjónustu

Stjórn RÚV, sem skipuð er tíu fulltrúum sem tilnefndir eru af Alþingi þvert á flokka, eru einhuga í afstöðu sinni til fjárhagsstöðu félagsins. Á fundi fjárlaganefndar Alþingis í gær kom fram í máli fulltrúa RÚV að gangi fjárlagafrumvarpið eftir muni það kalla á umfangsmikla uppstokkun á hlutverki RÚV og nauðsynlegan niðurskurð af þeirri stærðargráðu sem ekki hefur áður sést í sögu félagsins. Samkvæmt heimildum Kjarnans vöruðu fulltrúar RÚV við því að breytingin feli í sér svo mikla skerðingu á þjónustu að félagið muni ekki geta staðið undir lögbundum skyldum sínum og líklegt væri að þjóðin myndi bregðast illa við þegar umfang nauðsynlegs niðurskurðar liggur fyrir. Ekki verði lengra gengið í hagræðingu, nú væri ekkert eftir nema kjarnastarfsemi félagsins og því einungis hægt að bregðast við stöðunni með því að skera í burtu ákveðna þætti í þjónustu RÚV.
Stjórnendur RÚV telja að niðurskurðaraðgerðir félagsins muni vekja viðbrögð á meðal almennings. Þjóðin muni finna verulega fyrir skertri þjónustu RÚV.
Stjórnendur RÚV telja að niðurskurðaraðgerðir félagsins muni vekja viðbrögð á meðal almennings. Þjóðin muni finna verulega fyrir skertri þjónustu RÚV.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur stjórn RÚV ekki enn hafið undirbúning á yfirvofandi niðurskurði hjá félaginu, enda telur hún í verkahring Alþingis að leggja línur í þeirri vinnu með hliðsjón af umfangi breytinganna sem framundan eru á rekstri RÚV að óbreyttu. Ljóst er, miðað við stöðuna sem uppi er, að Alþingi þarf fyrst að taka ákvörðun um hvaða þættir í starfsemi RÚV skuli víkja og samhliða breyta útvarpslögum.

Upplýstu fjárlaganefnd um umfang niðurskurðarins

Nefndarmenn í fjárlaganefnd óskuðu eftir upplýsingum um af hvaða stærðargráðu nauðsynlegur niðurskurður yrði að óbreyttu. Samkvæmt heimildum Kjarnans nefndu stjórnendur RÚV að niðurskurðurinn væri svipaður að umfangi og tvær Rás 1 og umtalsvert til vibótar, öll innlend dagskrárgerð í sjónvarpi eða allt fréttasvið RÚV en það sinnir fréttum í öllum miðlum, veðri, fréttaskýringarþáttum á borð við Kastljós og starfsemi á landsbyggðinni.
„Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum RÚV í gær að ekki komi til greina að falla frá lækkun útvarpsgjaldsins.“
Ljóst má vera að með brotthvarfi Rásar 1, eða verulegs samdráttar í innlendri dagskrárgerð í sjónvarpi, mun koma til verulegrar skerðingar á menningarhlutverki RÚV og fræðsluefni mun minnka til muna. Þá myndi blóðugur niðurskurður á fréttasviði félagsins hafa verulegar skerðingar í för með sér á frétta- og öryggishlutverki RÚV og hætt við að starsfemi á landsbyggðinni myndi dragast saman enn frekar. Tveir þættir í starfsemi RÚV standa hins vegar undir sér, það er Rás 2 og erlent sjónvarpsefni, hvort tveggja vegna auglýsingatekna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum RÚV í gær að ekki komi til greina að falla frá lækkun útvarpsgjaldsins. Fjárlaganefnd mun ræða fjárlög ársins 2015 á fundi sínum klukkan 14:00 í dag. Fjárlagafrumvarpið verður svo afgreitt sem fjárlög ársins 2015 eftir þriðju umræðu í þinginu í næstu viku.