Benedikt Erlingsson: Þetta er auðvitað allt fréttastofunni að kenna. (Ræða á Austurvelli, 12.12.2014)

Góðir fundarmenn

Það sem mig langar að deila með ykkur er persónulegt . Það snýst um þann þátt Ríkisútvarpsins sem kallast Sjónvarp. Það er draumsýn um Sjónvarpið okkar. Draumurinn um hvað gott sjónvarp í almannaeigu gæti verið og gæti gert.

Ég tilheyri þeim hópi sem á sér draum um gott íslenskt sjónvarp. Kannski af því að ég hef kynnst sjónvarpi í almannaeigu á öðrum Norðurlöndum.

Þessi draumur var endurvakinn með nýjum útvarpstjóra og rísandi landi.

En nú átta ég mig á því að ég deili þessum draumi með allt of fáum. Alla vega ekki meirhluta þingheims.

Nú vakna ég upp við gamalkunnan veruleika.

Haltrandi og hálflamað sjónvarp, sem reynir af vanmætti en
góðum vilja, að vera menningarlegt félagsheimilli þjóðarinnar en er aldrei meira en ágætis fréttastofa á hlaupum, með íþrótta- og skemmtiefni í bland við erlendar sápur héðan og þaðan eins og verkast vill og einstaka mýraljósi hér og þar þegar vel tekst til …svona annað hvert ár. (Takk fyrir Orðbragðið)

Þetta er það sem við höfum alist upp við og flest þekkjum við ekki annað úr þessari átt.

Draumurinn um fæðingu íslenska sjónvarpsins, alvöru Sjónvarps með massívri innlendri dagskrárgerð. Íslenskt sjónvarp stútfullt af íslenskum heimildamyndum og leiknu efni.
Sjónvarp með greinandi umfjöllun rannsóknarblaðamanna sem hafa tíma til að vera það sem þeir eiga að vera: sérfræðingar. Draumurinn um sjónvarp sem menntar og skemmtir en SKEMMTIR alltaf fyrst.

Þessi draumur er ei meir. Hann rætist ekki úr því sem komið er. Kannski ekki fyrr enn eftir hálfan eða kannski heilan áratug. Ef hann rætist þá yfir höfuð.

Í straumkasti hinnar stafrænu byltingar höfum við misst af bátnum sem fleytt gæti okkur yfir þessar miklu beytingar og nú verðum við hrifin með. Hugmyndin um eina sjónvarpstöð sem félagsheimilli lítilar örþjóðar með örlitla tungmálið sitt er líklega glötuð.

En hvers vegna?

Hversvegna þarf þá að sparka í Ríkisútvarpið núna. Skera á háls myndi orðjótari maður en ég jafnvel segja.

Jú einhvers staðar innst inni vitum við öll hvað liggur þarna að baki.


Þetta er auðvitað allt fréttastofunni að kenna.

Við höfum öll tekið eftir því hvernig fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur tekið þátt í „ljótum pólitískum leik“ ásamt öðrum miðlum og nokkrum óþekkum stofnunum eins og Umboðmanni Alþingis og Ríkissaksóknara. Ekki bara það, heldur hefur fréttastofan beinlínis tekið þátt í „loftárásum“ á saklaust fólk eins og alkunna er. Verið staðin að verki við að taka virðulega ráðherra á beinið með dónalegum spurningum.
Auðvitað bera fórnarlömbin hönd fyrir höfuð sér þegar endurtekið er á þá ráðist.
Þetta er staðan hjá okkur í upphafi 21. aldar. Eina fréttastofan sem er ekki í einkaeign. Fréttastofan sem við eigum öll saman og á að halda uppi hugsjónum fjórða valdsins. Sú fréttaveita sem nýtur mest traust landsmanna og á að veita sjórnvöldum aðhald og hefur svo sannarlega gert það. Þessi fréttastofa og öll menningarstofnunin: Ríkisútvarpið sjálft er nú komin í gapastokk meirhlutans. Stjórnmálamanna sem finnst að sér vegið . Nú er refsivöndurinn reistur og kutinn brýndur.
Og hvað gerum við eigendurnir?
Hvað finnst okkur um þetta?
Hvað getum við gert?

Benedikt Erlingsson. 

Ræða flutt á samstöðufundi á Austurvelli 12. desember 2014.

Ægir Þór Eysteinsson - Blóðugasti niðurskurður í sögu RÚV framundan (Kjarninn. 13.12.2014)

Stjórn RÚV í heild sinni, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, og framkvæmdastjóri félagsins mættu á fund fjárlaganefndar Alþingis síðdegis í gær. Á fundinum ítrekaði stjórn RÚV ósk sína að fallið yrði frá fyrirhugaðri lækkun útvarpsgjaldsins, svo hægt verði að tryggja áframhaldandi starfsemi félagsins. Að óbreyttu stefnir í blóðugasta niðurskurð í sögu RÚV. Kjarninn hefur heimildir fyrir því hvað fram fór á fundi fjárlaganefndar, þar sem nefndin leitaði upplýsinga um hvaða áhrif fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins myndi hafa á rekstur RÚV. Á fundinum brugðu fulltrúar RÚV upp mynd af umfangi þess niðurskurðar sem félagið stendur frammi fyrir að óbreyttu.
Á sama tíma og stjórn RÚV ræddi við fjárlaganefnd komu nokkur hundruð manns saman á Austurvelli til að krefjast þess að stjórnvöld falli frá lækkun útvarpsgjaldsins.

Árlegur niðurskurður upp á 700 milljónir

Að óbreyttu mun útvarpsgjaldið lækka um áramótin úr 19.400 krónum niður í 17.800 krónur, og svo aftur 1. janúar árið 2016 niður í 16.400 krónur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 fær félagið 3,5 milljarða króna úr ríkissjóði til rekstursins, sem er 119 milljónum króna meira en á yfirstandandi ári til að mæta verðlagsbreytingum. Þá fær félagið aukaframlag upp á 181 milljón króna úr ríkissjóði, með skilyrðum þó, meðal annars að vaxtagreiðslur RÚV verði lækkaðar.
„Samkvæmt heimildum Kjarnans gerir rekstraráætlun RÚV ráð fyrir að fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins muni leiða til nauðsynlegs niðurskurðar í rekstri félagsins fyrir hátt í 700 milljónir króna á ári.“
Með lækkun útvarpsgjaldsins um áramótin er hins vegar áætlað að ríkissjóður verði af um 300 milljónum króna. Eins og fram hefur komið er RÚV yfirskuldsett, að megninu til vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga, og getur ekki staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gerir rekstraráætlun RÚV ráð fyrir að fyrirhuguð lækkun útvarpsgjaldsins muni leiða til nauðsynlegs niðurskurðar í rekstri félagsins fyrir hátt í 700 milljónir króna á ári. Rekstraráætlunin hefur verið yfirfarin af óháðum aðilum, að því er heimildir Kjarnans herma.
Til að rétta af efnahag félagsins undirbýr RÚV nú sölu á lóðinni við útvarpshúsið við Efstaleiti, sem borgarráð Reykjavíkur samþykkti nýverið að skipuleggja undir íbúðabyggð. Til stendur að nota söluandvirðið til að borga niður skuldir félagsins, og þá er einnig til skoðunar að selja útvarpshúsið sjálft. Ingvi Hrafn Óskarsson stjórnarformaður RÚV og Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, hafa sagt að óskert og óbreytt útvarpsgjald myndi standa undir rekstri félagsins, gangi fyrirhuguð eignasala eftir. Fram hefur komið að þrátt fyrir sölu á eignum RÚV, þarf félagið óbreytt útvarpsgjald til að standa undir lögbundnum skyldum sínum.

Þjóðin mun finna verulega fyrir skertri þjónustu

Stjórn RÚV, sem skipuð er tíu fulltrúum sem tilnefndir eru af Alþingi þvert á flokka, eru einhuga í afstöðu sinni til fjárhagsstöðu félagsins. Á fundi fjárlaganefndar Alþingis í gær kom fram í máli fulltrúa RÚV að gangi fjárlagafrumvarpið eftir muni það kalla á umfangsmikla uppstokkun á hlutverki RÚV og nauðsynlegan niðurskurð af þeirri stærðargráðu sem ekki hefur áður sést í sögu félagsins. Samkvæmt heimildum Kjarnans vöruðu fulltrúar RÚV við því að breytingin feli í sér svo mikla skerðingu á þjónustu að félagið muni ekki geta staðið undir lögbundum skyldum sínum og líklegt væri að þjóðin myndi bregðast illa við þegar umfang nauðsynlegs niðurskurðar liggur fyrir. Ekki verði lengra gengið í hagræðingu, nú væri ekkert eftir nema kjarnastarfsemi félagsins og því einungis hægt að bregðast við stöðunni með því að skera í burtu ákveðna þætti í þjónustu RÚV.
Stjórnendur RÚV telja að niðurskurðaraðgerðir félagsins muni vekja viðbrögð á meðal almennings. Þjóðin muni finna verulega fyrir skertri þjónustu RÚV.
Stjórnendur RÚV telja að niðurskurðaraðgerðir félagsins muni vekja viðbrögð á meðal almennings. Þjóðin muni finna verulega fyrir skertri þjónustu RÚV.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur stjórn RÚV ekki enn hafið undirbúning á yfirvofandi niðurskurði hjá félaginu, enda telur hún í verkahring Alþingis að leggja línur í þeirri vinnu með hliðsjón af umfangi breytinganna sem framundan eru á rekstri RÚV að óbreyttu. Ljóst er, miðað við stöðuna sem uppi er, að Alþingi þarf fyrst að taka ákvörðun um hvaða þættir í starfsemi RÚV skuli víkja og samhliða breyta útvarpslögum.

Upplýstu fjárlaganefnd um umfang niðurskurðarins

Nefndarmenn í fjárlaganefnd óskuðu eftir upplýsingum um af hvaða stærðargráðu nauðsynlegur niðurskurður yrði að óbreyttu. Samkvæmt heimildum Kjarnans nefndu stjórnendur RÚV að niðurskurðurinn væri svipaður að umfangi og tvær Rás 1 og umtalsvert til vibótar, öll innlend dagskrárgerð í sjónvarpi eða allt fréttasvið RÚV en það sinnir fréttum í öllum miðlum, veðri, fréttaskýringarþáttum á borð við Kastljós og starfsemi á landsbyggðinni.
„Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum RÚV í gær að ekki komi til greina að falla frá lækkun útvarpsgjaldsins.“
Ljóst má vera að með brotthvarfi Rásar 1, eða verulegs samdráttar í innlendri dagskrárgerð í sjónvarpi, mun koma til verulegrar skerðingar á menningarhlutverki RÚV og fræðsluefni mun minnka til muna. Þá myndi blóðugur niðurskurður á fréttasviði félagsins hafa verulegar skerðingar í för með sér á frétta- og öryggishlutverki RÚV og hætt við að starsfemi á landsbyggðinni myndi dragast saman enn frekar. Tveir þættir í starfsemi RÚV standa hins vegar undir sér, það er Rás 2 og erlent sjónvarpsefni, hvort tveggja vegna auglýsingatekna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum RÚV í gær að ekki komi til greina að falla frá lækkun útvarpsgjaldsins. Fjárlaganefnd mun ræða fjárlög ársins 2015 á fundi sínum klukkan 14:00 í dag. Fjárlagafrumvarpið verður svo afgreitt sem fjárlög ársins 2015 eftir þriðju umræðu í þinginu í næstu viku.

Guðmundur Gunnarsson - Aðförin að íslenskri tungu og sjálfstæði þjóðarinnar (Herðubreið. 11.12.2014)

Sigmundur Davíð forsætisráðherra talar ítrekað um mikilvægi samstöðu og jákvæðni þjóðarinnar og skaðann af þeim sem eru neikvæðir. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna var því heitið að „rækta með þjóðinni þær dyggðir sem best tryggja farsæld og jafnræði.“
Ráðherrar hafa ítrekað lýst því yfir að þeir vilji starfa í góðri sátt og samstarfi við þjóðina og samtök launamanna, en þegar sest er að samningaborðum verður niðurstaðan ætíð sú að sáttin verði að vera á grundvelli þess sem ríkisstjórnin leggur fram. Það sé mikill „ómöguleiki“ fólginn í því að fara að vilja þjóðarinnar. Þær skoðanir sem fjölmiðlar eiga að birta verða að falla að heimsýn Sigmundar Davíðs og samráðherra hans.
Samræða er mikilvægur liður í því að móta samfélagið. Fyrsta verk einræðisstjórna er að móta goðsagnir og ráðast að tungumálinu og samskiptum meðal þjóðarinnar m.a. með því að eyðileggja merkingu orða. Sigmundur Davíð og ráðuneyti hans hafa vaðið yfir tungumál okkar á skítugum skónum og rifið í sig merkingu orða. Snúið út úr hverri spurningu sem til þeirra er beint. Þessi vinnubrögð eru velþekkt úr stjórnmálafræðum.
Í orðabók forsætisráðherra og samráðherra eru reglulega endurtekið að strax þurfi að koma til móts við heimilin og leiðrétta þann forsendubrest sem þau hafa orðið fyrir. Hér er orðið heimilin notað um þá sem skulda húsnæðislán, en samkvæmt viðtekinni merkingu íslenskunnar þá er ráðherra að segja að þeir sem ekki skulda hússnæðislán eigi ekki heimili.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa markvisst og vísvitandi beitt fyrir sig afvegaleiðingu orða og hugtaka. Það jafngildir spillingu tungumálsins, sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskipta þeirra við samfélagið. Þetta framferði framkallar siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags. Spilling tungunnar og spilling siðferðis fer saman.
Tilhneigingin að breyta merkingum og kalla svart hvítt og öfugt hefur gengið mjög vel síðustu ár. Nú eru loforð ekki lengur loforð. Viðræðuslit þýða að verið sé að draga viðræður tilbaka. Orðið strax þýðir ekki strax, nema þegar það hentar. Hvað er verið að leiðrétta með skuldaleiðréttingu? Hvaða villa var gerð? Þarna er verið að blekkja.
Leiðrétting er orðin að skrauthvörfum þar sem það liggur í raun ekki fyrir hvað sé verið að leiðrétta. Forsendubrestur þar sem ráðamenn ganga fram í því að vekja rangar væntingar og koma sér síðan undan því að standa við loforðin. Hvaða forsendur brustu og hverjir voru það sem urðu fyrir þessum forsendubresti?
Framkoma ráðamanna við tungumálið er það alversta og hættulegasta sem hefur dunið á okkur undanfarin ár. Vísvitandi er gengið í að blekkja og slá ryki í augu fólks. Síðan er endurtekningin nýtt til þess að hamra á hlutunum svo almenningur fari að tileinka sér hugtakið og fara að ræða hlutina á fölsuðum forsendum.
Stjórnmálaræður og skrif aðstoðarmanna ráðherra hafa undanfarið einkennst af vörnum á því sem er óverjandi. Síðustu ár hefur þetta ástand farið síversnandi hjá ráðandi stjórnmálamönnum og aðstoðarmönnum þeirra á ábyrgðalausan hátt og vísvitandi er verið að blekkja og slá ryki í augu fólks.
Við ritun þessa pistils rifjaðist upp fyrir mér þegar fyrrv. blaðamaður á DV undir ritstjórn Óla Björns varaþingmanns Sjálfstæðismanna skrifaði grein og lýsti því þegar Óli og hans helstu samstarfsmenn umskrifuðu viðtöl og fréttir ef þeim þóttu þau ekki túlka skoðun Sjálfstæðisflokksins á nægilega heppilegan hátt.
Rifjum upp nokkur ummæli. Sigmundur Davíð kom laskaður út úr viðtölum hjá RÚV við Gísla Martein og Sigmar, auk þess lýsti hann miklum vonbrigðum með fréttastofu RÚV þegar spilaðar voru upptökur úr kosningabaráttu Framsóknar og farið yfir misræmið í framsetningu stjórnarliða fyrir og eftir kosningar. Sigmundur Davíð kallaði þessa umfjöllun „Fyrsti mánuður loftárása“.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hótaði á síðasti ári að hún ætlaði að beita sér gegn „vinstrisinnuðu“ og „ESB-sinnuðu“ Ríkisútvarpinu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ítrekað vegið að RÚV og m.a. lagt til að loka þáttum Egils Helgasonar. Sigrún Magnúsdóttur þingflokksmaður hefur lýst því yfir að framsóknarmenn „nenni ekki lengur“ að styðja Ríkisútvarpið og allir viti hvers vegna.
Já það er rétt hjá Sigrúnu, það vita það allir. Hér eru á ferðinni ráðandi öfl sem vega að málfrelsi og ritfrelsi ritstjórna RÚV og hóta niðurskurði og uppsögnum hjá RÚV sýni starfsmenn þessarar ríkisstofnunar ekki samstöðu með þeim sem sitja við stjórnvölinn. Þess er krafist að fréttamenn láti viðtöl við rétta og innvígða stjórnmálamenn nægja sem einu heimildina í frétt.

Ingvi Hrafn Óskarsson - Rökþrot þingmanns? (Mbl. 11.12.2014)

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur að undanförnu sett fram hæpnar fullyrðingar um fjármál Ríkisútvarpsins. Hefur hann m.a. borið brigður á þá kunnu staðreynd, sem greint var frá í fréttatíma Ríkisútvarpsins, að Alþingi hefur jafnan ákveðið í fjárlögum að Ríkisútvarpið fái ekki útvarpsgjaldið óskert. Taldi fréttastofa Ríkisútvarpsins óhjákvæmilegt að árétta frétt sína um útvarpsgjaldið af þessu tilefni. Guðlaugur telur sig greinilega hafa fengið hirtingu sem undan svíður og krefst nú afsökunar frá Ríkisútvarpinu. Vandinn er hins vegar sá að á undanförnum vikum hefur Guðlaugur ítrekað farið með staðlausa stafi um fjármál Ríkisútvarpsins og beitt fyrir sig útúrsnúningum sem hvergi snerta kjarna málsins. Hann verður að sætta sig við að á það sé bent.
Talnaleikfimi sú sem Guðlaugur hefur borið á borð felst í því að vísa hálfan áratug, og lengra, aftur í tímann til þess að finna rökstuðning fyrir máli sínu. Guðlaugur burðast við að reikna út hver fjárframlög Ríkisútvarpsins voru fyrir árið 2009, með mistækum árangri, eins og það hafi nokkra einustu þýðingu fyrir umræðu um þá stöðu sem nú er uppi. Á meðan eru staðreyndirnar sem máli skipta nærtækar og skýrar; á síðastliðnum fimm árum hefur um 1.650 milljónum af innheimtu útvarpsgjaldi verið ráðstafað til annarra verkefna hins opinbera.
Einkennilegast er þó að Guðlaugur bregst ekki við áréttingu Ríkisútvarpsins með því að draga fram staðreyndir málsins, t.d. með því að leggja fram upplýsingar úr fjárlögum undangenginna ára. Þess í stað kveður hann Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðaherra, til vitnis í málinu, þar sem Steingrímur mun einhvern tímann hafa sagt eitthvað svipað og hann sjálfur. Það virðist að mati þingmannsins vera fullnægjandi grundvöllur fyrir kröfu hans um afsökun.
Hlýtur að teljast nokkurt nýnæmi að þingmaður Sjálfstæðisflokksins leggi slíkt traust á yfirlýsingar og upplýsingar frá Steingrími J. Fram til þessa hefur traust milli þingmannanna tveggja ekki virst gagnkvæmt. Það skyldi þó ekki vera að Guðlaugur grípi þetta síðasta hálmstrá þegar rökþrot blasir við?
Höfundur er lögmaður og formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf.

Ritstjórn Kjarnans: Stjórnmálamenn að rífa niður RÚV án stefnu (Kjarninn.11.12.2014)

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og þingflokkar stjórnarflokkanna sem heild, virðast hafa einbeittan vilja til þess að skera niður fjárframlög til RÚV. Á næstu nítján dögum mun koma í ljós hvernig fjárlögin verða afgreidd, en margt bendir til þess að útvarpsgjaldið verði lækkað úr 19.400 krónum í 17.800 krónur 1. janúar og svo skert í 16.400 krónur árið 2016. Bréfritari fær ekki betur séð, en að þetta þýði niðurfellingu á þjónustu RÚV sem ekki er víst að stjórnmálamenn átti sig á hversu mikil er, þar sem þessi aðgerð heggur beint inn í grunnreksturinn. Þetta samsvarar því að Rás 1 og Rás 2 verði svo gott sem alveg lagðar niður í heild sinni, starfsfólki fækkað hjá öllum deildum og þjónustan stórlega skert í sjónvarpi.
Það sem er verst í þessu, og veldur áhyggjum, er að stjórnvöld með mennta- og menningarmálaráðherrann Illuga Gunnarsson fremstan í flokki hafa ekki mótað neina heildstæða og djúpa stefnu um hverju þessar breytingar eiga að skila og hvernig þær samræmast lögbundnu hlutverki. Í versta falli geta svona aðgerðir aukið kostnað, og grafið undan menningarlegu hlutverki RÚV. Það hafa komið fram sannfærandi hagfræðileg rök fyrir mikilvægi menningarstarfsemi og opinbers stuðnings við hana, meðal annars frá Dr. Ágústi Einarssyni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð, ekki síst þegar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var formaður hans, stutt við menningarstarfsemi af ýmsu tagi og talað fyrir mikilvægi hennar. Á þetta hefur Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, bent. Nú virðist hafa orðið mikil breyting á, meðal annars með tilkomu nýrrar kynslóðar Sjálfstæðismanna. Svo virðist sem stjórnarflokkarnir líti svo á, að RÚV eigi ekki að starfa eftir núgildandi lögum heldur eigi það að vera mun minna að umfangi og þessar breytingar eigi að keyra í gegn, gegn vilja listamanna og fólks sem starfar við menningarstarfsemi. Þetta gæti reynst stjórnarflokkunum dýrkeypt, og hrint af stað atburðarrás sem erfitt er að sjá hvernig endar…

Árni Matthíasson - Rætur íslenskrar menningar (Mbl. 10.12.2014)

Hugsanlega er ég vanhæfur þar sem ég ólst upp með Ríkisútvarpinu, enda var afi minn tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins og móðir mín þýddi og skrifaði barnaefni sem þar var birt. Ég lék líka í barnatímum á hennar vegum (þar til við bræðurnir heimtuðum kauphækkun og vorum reknir með það sama), þýddi bók fyrir útvarpið um stjörnufræði þegar ég var unglingur (en gat ekki lesið þar sem ég var í mútum) og var síðar með tónlistarþætti á Rás 2 fyrir tveimur áratugum eða svo.
Nú vill svo til að ég er mjög áhugasamur um tónlist og þá allar gerðir tónlistar nema kannski þýska schlager-tónlist. Þann áhuga rek ég annars vegar til þess að ég ólst upp á heimili þar sem sígild tónlist var í hávegum og svo líka vegna þess að ég ólst upp við Ríkisútvarpið. Á æskuárum mínum var það einsog hafið yfir gagnrýni, eða í það minnsta man ég ekki eftir því að neinn hefði hallmælt því nema þá vegna þess að það væri ekki nóg spilað af harmonikkutónlist. Þegar ég eltist sá ég þó ýmsa vankanta, ekki síst þann að í útvarpinu mátti ekki heyra neina tónlist sem þótti ófín, enga hóruhúsatónlist eins og mætur útvarpsmaður sagði við mig um djass fyrir langa löngu. Þar eimdi náttúrlega eftir af því að í árdaga útvarpsins töldu menn það hlutverk sitt að mennta fólk og uppfræða, hvort sem því líkaði það betur eða ver.
Með tímanum létu forsvarsmenn útvarpsins undan kalli tímans og settu á stofn útvarpsrás sem spila skyldi tónlist fyrir unga fólkið. Það var reyndar of seint fyrir mig, því ég var ekki lengur meðal unga fólksins þegar hér var komið sögu og hafði lítinn áhuga á þeirri tónlist sem þá var efst á baugi. Þrátt fyrir það hefur Rás 2 verið sá staður þar sem ég hef komist í nýja íslenska tónlist í gegnum árin, þar hafa verið þættir þar sem heyra má það sem nýjast er og forvitnilegast, eins og til að mynda sú frábæra þáttaröð Langspil sem spilar allskonar nýja íslenska tónlist.
Í þeirri sérkennilegu umræðu sem nú stendur um Ríkisútvarpið og hlutverk þess eru háværar raddir hægrimanna sem telja það goðgá að ríkið sé að halda úti útvarps- og sjónvarpsstöð og fréttavef að auki. Vissulega má taka undir það að þörfin fyrir Ríkisútvarp hefur breyst á liðnum árum og svo mikið að sjálfsagt er að endurskoða sitthvað í rekstri þess. Þeir dellumenn sem vilja aftur á móti leggja af ríkisútvarpið í nafni frelsis eru þó úti að aka eins og endranær.
Við Íslendingar töldum okkur svo mikla fjármálavitringa forðum að enginn stæði okkur á sporði, en í hruninu sem gekk yfir heiminn á síðasta áratug kom í ljós að það eina sem við gátum státað af var íslensk menning og Ríkisútvarpið hefur einmitt verið iðið við að næra íslenska menningu. Ef frjálshyggjumenn hefðu fengið að ráða ferðinni hefði ekkert verið eftir þegar fjármálastofnanir okkar hrundu. arnim@mbl.is
Árni Matthíasson

Egill Helgason - Þið hljótið að vita það (Eyjan. 10.12.2014)

Austurvöllur 4. desember 2014, um klukkan 11.30. Bjartviðri, en nokkuð kalt. 
Við vorum þarna upptökulið frá Kiljunni. Áttum tal við vegfarendur sem gengu framhjá, þar á meðal nokkra þingmenn. Ræddum málefni Ríkisútvarpsins.
Aðvífandi kemur, gangandi frá Alþingishúsinu, Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknar.
Ég tek hana tali og spyr hvort hún ætli ekki að styðja Ríkisútvarpið, þetta var kurteislegt, nokkuð margir hlýddu á.
Þá segir þingflokksformaðurinn:
„Framsóknarflokkurinn stofnaði Ríkisútvarpið og hefur alltaf stutt það.“
Ég segi: „Og auðvitað gerið þið það áfram?“
„Nei, nú nennum við því ekki lengur!“ sagði Sigrún og strunsaði áfram.
Ég kallaði á eftir henni hvers vegna þetta væri, þá kallaði hún til mín:


„Þið hljótið að vita það!“

Svavar Gestsson - Ekki þú líka Sigurjón (Vísir. 10.12.2014)

Það er alls staðar sótt að Ríkisútvarpinu þessa dagana. Í fjárlagafrumvarpinu, í 365-miðlunum, í Morgunblaðinu. Allt þetta þrennt er skýranlegt þó að ég sé að vísu ósammála því: Ríkissjóð vantar peninga af því að verkefnin eru mörg og af því að það er búið að lækka skattana um nokkra tugi miljarða. Það er skýranlegt með 365 miðlana af því að þá vantar pláss; þar eru fjárhagslegar blikur á lofti. Og í þriðja lagi er það rökrétt að Morgunblaðið sé á móti Ríkisútvarpinu; fyrir því eru markaðsástæður og pólitískar ástæður. Og nú er Sigurjón ritstjóri þessa blaðs farinn að tala um að Ríkisútvarpið fái beingreiðslur. Æi! Ekki þú líka – Sigurjón. Skattarnir standa undir greiðslum til samfélagsins, sjúkrahúsanna, skólanna, veganna. Skattarnir eru gjaldið sem við viljum greiða fyrir að búa í siðuðu menningarsamfélagi. Beingreiðslur.

Má ég í allri vinsemd minna á að Ríkisútvarpið er menningarstofnun. Það þrífst ekki nema sem hluti af samfélaginu. Íslenskt samfélag þrífst ekki án Ríkisútvarpsins. Þættirnir um Vesturfarana hefðu ekki orðið til nema vegna þess að hér er Ríkisútvarp, hvorki þættir Egils né Andra. Má ég spyrja um fleiri atriði eins og táknmálsfréttir, sinfóníutónleika, útvarpssögurnar, stöðugar veðurfréttir? Ríkisútvarpið sem menningarstofnun er mikilvægt eins og Sinfónían, Þjóðleikhúsið, Landsbókasafnið, Þjóðskjalasafnið. Allir skilja að þessar stofnanir eru hluti af þeim veruleika sem við viljum búa við, að þær eru menningarstofnanir. Ríkisútvarpið er hluti af þjóðmenningunni; það er atlaga að þjóðmenningunni að ráðast að Ríkisútvarpinu. Var ekki einhver að taka um þjóðmenningu?

Má ég enn fremur minna á að menntamálaráðherrar Framsóknarflokksins, þeir Ingvar Gíslason og Vilhjálmur Hjálmarsson, stóðu alltaf með Ríkisútvarpinu. 
Það sem má gera núna er þetta: Látið þið Ríkisútvarpið fá útvarpsgjaldið að fullu og losið stofnunina við gamla lífeyrisbyrði.

Sýnum sanngirni. Það var nefnilega fín fyrirsögnin á leiðaranum í vikunni: Heilbrigðiskerfið skapar verðmæti. Eins er það með Ríkisútvarpið; menningin er líka verðmæti.

Hallgrímur Thorsteinsson - Leiftursókn öfgafólksins gegn RÚV (DV. 09.12.2014)

Ríkisútvarpið sætir grimmilegri og grímulausri pólitískri aðför um þessar mundir, líklega þeirri alvarlegustu sem dæmi eru um í langri sögu útvarps í almannaþágu á Íslandi. Aðförin miðar beinlínis að því að veikja fjárhagslega og menningarlega stöðu RÚV til frambúðar. Nú skal látið sverfa til stáls.
Almenn nauðsyn til niðurskurðar hjá hinu opinbera á hörðum tímum eftirhrunsáranna er höfð að yfirskini, en það þarf ekki að rýna lengi í óbrenglaðar niðurstöðutölur úr rekstri RÚV síðustu ára til að sjá að sá samdráttur og aðhald sem þurfti í rekstrinum vegna kreppunnar hefur þegar orðið. Niðurskurðurinn sem krafist er af RÚV núna með þeirri lækkun útvarpsgjaldsins sem framundan er verður því alfarið að skrifast á reikning pólitískra hefndarráðstafana frá ríkisstjórnarflokkunum.
Allar íslenskar ríkisstjórnir hægra megin við miðjuna hafa gegnum tíðina haft uppi einhverja tilburði í sömu átt þegar þær komast til valda, svo nánast hefur mátt tala um ósjálfrátt viðbragð í því sambandi. Útvarpslögum hefur verið breytt, fjárframlögum breytt eða seinkað og flokkshestum beitt fyrir vagninn til að sveigja hann inn á þóknanlegri brautir.
Allar slíkar ráðstafanir hafa vissulega haft tímabundin lamandi áhrif á starfsemi þjóðarútvarpsins en þessir leiðangrar hafa samt í rauninni aldrei náð að skila upphafsmönnum sínum tilætluðum árangri. Til þess hefur hugmyndin um útvarpsstarfsemi í almannaþágu og almenningseign einfaldlega staðið of sterkum rótum í lýðveldismenningunni.
Þegar grannt er skoðað er það augljóst að í hugum Íslendinga upp til hópa leikur alls engin vafi á gildi þess, að miðlað sé til almennings gömlum og nýjum menningarverðmætum án tillits til viðskiptasjónarmiða og haldið sé úti fréttaþjónustu og samfélgsrýni á forsendum almannahagsmuna, þar sem sérhagsmunir komi hvergi nærri. Allar viðhorfs- og skoðanakannanir staðafesta þennan hug til RÚV og jafnvel þeir stjórnmálamenn sem lagst hafa á gagnrýnisárarnar gegn Ríkisútvarpinu hafa fyrr eða síðar flestir þurft að horfast af heiðarleika í augu við þann sannleik, að á frjálsum markaði fyrirfinnast einfaldlega ekki innbyggðir hvatar til að þessum lýðræðislegu og menningarlegu þörfum sé þar fullnægt á viðskiptalegum forsendum. Það er hvort tveggja í senn einfeldningsleg tálsýn og pólitísk öfgahugsun.
Að telja fólki trú um annað getur því aldrei flokkast undir annað en pólitískan loddaraskap og þegar svo viðskiptalegir sérhagsmunir róa undir verður plebbahátturinn svo skínandi ber að fólki hrís hugur við.
Og þannig er því farið um yfirstandandi leifturárás myrkustu afla Sjálfstæðisflokksins gegn RÚV þar sem helstu hirðfífl Framsóknar spila með en sómakærari flokksmenn standa hjá þegjandalegir og rjóðir.
Þess vegna er það þeim mun athyglisverðara að þeir sem nú eru í þeirri óöfundsverðu stöðu að framfylgja útvarpslögum telja sig ekki hafa svigrúm innan þeirra til að framfylgja boðvaldi fjárlaga. Þó svo að núverandi stjórnarformaður RÚV hefði kannski glaður skrifað upp á skert framlög til RÚV í formannstíð sinni hjá Heimdalli eða SUS um árið þá stendur hann núna í baráttu fyrir því að almannaviljinn um stöðu RÚV sé virtur gegn freklegri niðurrifsstarfsemi öfgaafla í blóðmörstíð fjárlaganna.
Hann talaði skýrt í áskorun stjórnar RÚV til Alþingis fyrir viku: „Ef það er vilji Alþingis að gjörbreyta hlutverki Ríkisútvarpsins og skyldum, þá er eðlilegt að fram fari umræða og þá með tilheyrandi breytingum á útvarpslögum áður en tekin er ákvörðun um að lækka útvarpsgjald.“
Það er verður forvitnilegur prófsteinn á lögstjórnina í landinu að sjá hvernig stjórnarformanni RÚV, SUS-formanninum með mastersgráðuna í lögum frá Columbia-háskólanum, vegnar í glímu sinni fyrir hönd almennings gegn pólitískum ofstækismönnum í eigin flokki.

Ólafur Páll Gunnarsson - Þingmenn - þið hafið engan rétt (Herðubreið. 09.12.2014)

Þeir þingmenn sem sitja á Alþingi á hverjum tíma eru fulltrúar okkar hinna, fulltrúar þjóðarinnar. Það komast ekki allir Íslendingar fyrir í þingsalnum og það geta ekki allir stjórnað í einu og þess vegna kjósum við fólk sem okkar fulltrúa til að tala okkar máli á Alþingi – einn þingmann á hverja 5 þúsund landsmenn eða þar um bil. Þetta vitum við … eða hvað?
Eitt af því sem gerir okkur að þjóð er sú staðreynd að við getum talað saman. Við tölum sama tungumál, skiptumst á skoðunum, hlustum á sama útvarpið og horfum á sama sjónvarpið. RÚV, Ríkisútvarpið, þjóðarútvarpið, er eitt af því sem tengir okkur saman og gerir okkur að einni þjóð. Ríkisútvarpið er sameign okkar allra. Þetta vitum við … eða hvað?
Eitt af því sem síðasta ríkisstjórn gerði eftir hrun var að taka hluta af lögbundnu útvarpsgjaldi, sem er ákveðið á Alþingi, og nota það til að stoppa upp í risastórt fjárlagagatið. Ég er að tala um útvarpsgjaldið sem á lögum samkvæmt að renna allt til Ríkisútvarpsins. Okkur sem unnum og vinnum á Ríkisútvarpinu, og mörgum öðrum, fannst þetta súrt, en við skildum þessa ákvörðun. Hún átti að vera til bráðabirgða og átti að ganga til baka þegar þjóðarskútan væri komin út úr mesta storminum. Það hefur ekki enn gerst. Þetta vitum við … eða hvað?
Fyrrverandi og núverandi útvarpsstjóri hafa báðir barist fyrir því að Ríkisútvarpið fái þá peninga, sem ákveðið er með lögum á Alþingi að það eigi að fá, frá fólkinu sem á Ríkisútvarpið og tekur þátt í fjármögnun þess með peningunum sínum, en þeir sem eru á aldrinum 18-70 ára og hafa 1.559.003 kr. í tekjur á ári borga rúmlega 50 krónur á dag fyrir Rás 1, Rás 2, Sjónvarpið, Rondo og ruv.is. Útvarpsstjórarnir hafa lagt mikið á sig til að fá ríkið til að skila öllu útvarpsgjaldinu og hætta að setja það í annað, en nú þegar loksins lítur út fyrir að baráttan sé að vinnast ákveður ríkisstjórnin að lækka útvarpsgjaldið áður en hún skilar því.
Það er gott að lækka skatta og það er gott að sýna aðhald í útgjöldum hins opinbera. Þetta vitum við en stóra – risastóra spurningin er þessi: Hvað vakir fyrir ríkisstjórn Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs? Hvers vegna telja þeir að það sé betra fyrir Ísland og Íslendinga að lækka útvarpsgjaldið árlega um 3.000 krónur á hvern greiðanda? Þetta eru 250 krónur á mánuði, rétt rúmar 8 krónur á dag. Þó svo að lækkunin sé ekki meiri en þetta þá skipta þessar krónur Ríkisútvarpið öllu.
Þegar íslenska þjóðin er spurð að því hvort hún vilja lækka útvarpsgaldið segja flestir: Nei – en ég vil að það renni allt til Ríkisútvarpsins. Og hvað er þá málið? Hvers vegna er það svona mikið kappsmál að Ríkisútvarpið fái minni peninga en í gær og fyrra og árið þar á undan? Getur verið að gamla samsæriskenningin sé sönn eftir alltsaman; að ákveðin öfl innan stjórnarflokkanna vilji hreinlega losna við Ríkisútvarpið, drepa það, selja það, einkavæða það á einhvern hátt…; getur það verið? Já, ég held því miður að það geti verið. Ég sé a.m.k. engin önnur rök.
Ef þeir þingmenn sem eru fulltrúar okkar ætla að greiða atkvæði með því að við spörum þessar 8 krónur á dag, hefur það dramatískar og kæfandi afleiðingar í för með sér fyrir Ríkisútvarpið, og ekki bara núna á næsta ári, heldur um ókomna tíð. Ef Ríkisútvarpið fær ekki þessar tekjur þarf að breyta starfseminni mjög mikið frá því sem við þekkjum hana í dag. Við erum ekki að tala um neitt smá rok, heldur hamfarastorm í Efstaleiti og enn eitt skrefið í átt að endalokum Ríkisútvarpsins. Ef útvarpsgjaldið verður minnkað um þessar 3.000 krónur á mann á ári þá jafngildir það því t.d., að öll dagskrá útvarpsins, bæði Rásar 1 og Rásar 2, yrði þurrkuð út, enda borga 3.000 krónur á mann í raun sem samsvarar allri dagskrárgerð beggja rásanna. Ég er ekki að segja að það verði slökkt á útvarpinu ef þetta frumvarp verður samþykkt, en tölurnar eru í þessum stærðarflokki.
Það er búið að fara í miklar aðgerðir á Ríkisútvarpinu á undanförnum árum. Starfsmenn voru 340 árið 2008 en nú eru þeir um 230, sem sagt yfir 30 prósent niðurskurður í starfsmannahópnum. Þjónustan hefur þegar verið skert. Dregið hefur úr fréttaþjónustu, dregið hefur úr starfsemi útvarpsleikhúss, aukinn endurflutningur er á báðum útvarpsrásunum, svæðisútsendingar hafa verið lagðar af og svo framvegis.
Til að stoppa upp í 3.000 kr. gatið verður gengið enn frekar á starfsmannafjöldann og heilu deildirnar mögulega slegnar af. Kannski verður hætt að senda út frá landsleikjum í fótbolta og handbolta og kannski verða bara engar íþróttir. Mögulega munu veðurfréttir í sjónvarpi verða lagðar niður, sem og Kastljós. Rás 1 hættir ef til vill samstarfi sínu við Sinfóníuhljómsveit Íslands; Rás 2 og RÚV. verða ekki á Arnarhóli á Menningarnótt; það verður ekkert áramótaskaup; Rás 2 sendir ekki út frá Bræðslunni; …við erum rétt að byrja að reyta af okkur fjaðrirnar.
Það er margt sem má gera betur í Ríkisútvarpinu en það er önnur umræða og annað mál. Ég á að sjálfsögðu von á að einhverjir svari þessum litla pistli mínum á þann veg að ég sé nú bara hræddur við að missa vinnuna mína og það alltsaman. Já, vissulega vil ég ekki missa vinnuna mína frekar en aðrir, en þetta snýst ekki um það. Ég trúi því einfaldlega að það sé verra að búa á Íslandi sem hefur ekki gott, sjálfstætt og óháð Ríkisútvarp. Miklu verra meira að segja.
Þeir sem eru kjörnir fulltrúar á Alþingi í dag eiga að hugsa um hagsmuni okkar allra; við kjósum þá ekki til að þjóna flokknum, vinum sínum eða einhverjum öðrum sérhagsmunum. Og ef einhver ykkar sem eruð á Alþingi í dag nennið að lesa þetta þá eru þetta skilaboðin: Þið hafið alls engan rétt til þess að eyðileggja Ríkisútvarpið sem við eigum öll saman. Þið getið það, en ég trúi ekki að þið ætlið að gera það.
Ólafur Páll Gunnarsson
Höfundur er tónlistarstjóri Rásar 2 – starfsmaður Ríkisútvarpsins síðan 1991.