Pönkið formlega komið í byltinguna: „flash mob“ á facebook

Hljómsveitin Mammút sendi frá sér þessa yfirlýsingu í dag:

Tónlistarmaðurinn Pétur Ben birti þetta myndband í dag:

Apparat Organ Quartet létu sig svo sannarlega ekki vanta:

Hljómsveitin Retro Stefson sendi frá sér þessi skilaboð í dag:

Fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita sendu einnig frá sér yfirlýsingar í dag:


























































Ávarp Sigríðar Ólafsdóttur á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Sigríður Ólafsdóttir var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa og heyra erindi Sigríðar í heild sinni:


,,Góðir fundarmenn, bandamenn Ríkisútvarpsins.

Alla ævi hef ég mikið hlustað á útvarp. Músík, leikrit, fræðsla, skoðanir, fréttir, menningar- og samfélagsstraumar og upplýsingar utan úr heimi. Þar töluðu, og tala enn, hugsuðir, fræðimenn, listamenn og leiðtogar þjóðarinnar, fólk sem á erindi til almennings. Dagskrárgerðarfólkið okkar tryggir að efnið skili sér í hæfilegum skömmtum og að fyllt sé í eyður með spurningum og umræðum. 

Útvarpið er hluti af mér og endurspeglar að hluta minn veruleika. En Útvarpið hefur líka verið allt mögulegt annað en það sem ég þekki og kann skil á. Útvarpið hefur gert mig sólgna í tíðindi, menningu og frásagnir af mannlífi sem er mér algerlega framandi og ég vissi ekki að væri til. Ég fæ að heyra tónlist sem ég vissi ekki að mér þætti skemmtileg, sögur sem vekja gleði og furðu, hugmyndir sem ýta við mér og lifa í hausnum á mér lengi á eftir. Í útvarpinu er menning og þverskurður af samfélaginu í öllum sínum fjölbreytileika. Þess vegna er það svo mikilvægt.

Í 3. Grein laga um ríkisútvarpið segir m.a.:
„Fjölmiðlaþjónusta Ríkisútvarpsins í almannaþágu hefur það markmið að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda.“
Þar stendur líka:
„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni“.
Ennfremur segir í Samningi Ríkisútvarpsins ohf og mennta og menningamálaráðuneytis (gildir frá maí 2011 - desember 2015):
“Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða og miðla upplýsingum um mikilvæg málefni líðandi stundar og þannig auðvelda fólki að taka virkan þátt í lýðræðislegri umræðu.“
Höfum þetta í huga þegar við minnumst þess að 4 af 8 umsjónarmönnum Kastljóssins var sagt upp í síðustu viku og 2 af 4 umsjónarmönnum Spegilsins, en þessir þættir eru öflugasti vettvangur gagnrýnnar umræðu í landinu. Í þessu ljósi er enn undarlegra að skömmu fyrir uppsagnirnar var maður sem nátengdur er stjórnmálaflokki, ráðinn án auglýsingar til að annast léttan og skemmtilegan þátt, á stað í sjónvarpsdagskránni þar sem áður hafði farið fram gagnrýnin umræða.

Í lögunum er talað um að sérstakt efni skuli vera fyrir börn og ungmenni. Með uppsögnunum í síðustu viku hefur allt barnaefni verið fellt niður í útvarpi.

Ávarp Kolbeins Óttarssonar Proppé á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Kolbeinn Óttarsson Proppé var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa og heyra erindi Kolbeins í heild sinni:


,,Ágætu fundarmenn.

Ríkisútvarpið. Þessi margslungni menningarvefur sem teygir anga sína inn í líf hvers og eins einasta íbúa þessa lands. Útvarp Reykjavík, nú verða sagðar fréttir. Miðstöðin er staðsettt í Reykjavík, en Ríkisútvarpið verður þó ekki til fyrr en í eyrum viðtakendanna – og þeir eru um allt landið og miðin og meira að segja úti í hinum stóra heimi.

Sumarmorgunn í sveitinni. Amma er að sýsla í eldhúsinu, afi kúrir aðeins lengur, enda klukkan rétt um 7, en ég er kominn á ról og nýt þess að hlusta á Gufuna með ömmu. Aprílkvöld í borginni rúmum 30 árum síðar. Við feðgar sitjum heima og hlustum á úrslitakvöld Músiktilrauna. Miðaldra maðurinn reynir að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast í tónlistarlífi landans og hvert er leitað? Að sjálfsögðu til Ríkisútvarpsins.

Þannig fylgir Ríkisútvarpið okkur frá vöggu til grafar, kynslóð eftir kynslóð. Á leið minni hingað í Háskólabíó gekk ég reyndar framhjá gröf íslenskrar menningar, þannig að kannski er við hæfi að við höldum þennan fund hér. En, öll höfum við skoðun á Ríkisútvarpinu; einhver þolir ekki tiltekinn útvarpsþátt eða jafnvel stjórnanda, annarri finnst Rás 1 bara vera fyrir gamla fólkið og þau eru til sem finnst þetta allt frábært. Þau sem enga skoðun hafa á einhverju af því sem Ríkisútvarpið býður upp á, bæði í útvarpi og sjónvarpi, eru hins vegar teljandi á fingrum annarrar handar, það munuð þið sannreyna í komandi jólaboðum. Af því að Ríkisútvarpið erum við, fólkið. Fólkið sem vinnur þar og fólkið sem nýtur afraksturs þeirrar vinnu.

Ríkisútvarpið er hins vegar ekki einkamál stjórnenda og stjórnmálamanna til að spila með eftir því hvernig vindar blása hverju sinni í þjóðlífinu. Ríkisútvarpið er leiðarhnoðað okkar og þegar það er farið að trosna rekjum við það ekki upp án umræðu, við reynum að bæta úr ástandinu og þétta hnykilinn.

Hvar er umræðan um Ríkisútvarpið? Hvar eru svörin við því af hverju sumu fólki er sagt upp, en öðru ekki, hvar eru svörin við því af hverju skera þarf niður um ákveðna krónutölu en ekki aðra, hvar er umræðan um hlutverk Ríkisútvarpsins?

Af hverju höldum við úti Rás 2? Sjónvarpsstöð? Sérrás fyrir íþróttir? Fréttastofu? Kastljósi? Ég held að þetta sé umræða sem við séum flestöll tilbúin til að taka, en á meðan stjórnendur og stjórnmálamenn þráast við að taka þátt í henni verður umræðan mjög einhliða – svolítið eins og að sitja heima í stofu og tala við útvarpstækið.

Af hverju höldum við úti Rás 1?

Ég get svarað því fyrir mína parta. Af því að það er hluti af menningu okkar og sögu. Mín skoðun er hins vegar ekki endilega sú rétta, kannski er hún ekki einu sinni rétt. En á meðan við ræðum ekki af alvöru, fordómalaust, um Ríkisútvarpið – hina einu sönnu sameign þjóðarinnar – þá verður starfsemi þess ætíð háð velvilja misvitra stjórnenda og stjórnmálamanna og það má ekki gerast – sama hvaða stjórnendur og hvaða stjórnmálamenn eiga í hlut hverju sinni.

Ríkisútvarpið er of mikilvægt til að verða að pólitískri skiptimynt. Stöndum vörð um þetta fjöregg og þar með um menningu okkar.

Því það er alveg sama hvað hver segir; Ríkisútvarpið er ekki hús, ekki starfsfólk og ekki einu sinni dagskrá.

Ríkisútvarpið er menning. Ríkisútvarpið er við. Við öll.

Þetta er okkar Ríkisútvarp – vinsamlegast skilið því aftur."

Ávarp Melkorku Ólafsdóttur á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Melkorka Ólafsdóttir var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa og heyra erindi Melkorku í heild sinni:


,,Eldgömul saga segir af manni sem gengur inn í myrkvað herbergi. Í myrkrinu rekur hann augun í snák sem hringar sig ógnvekjandi fyrir framan hann. Hræðsla og ótti yfirtaka manninn, þar til hann áttar sig á því að kveikja á ljóstýru og beina henni að snáknum. Í ljóskeilunni sér hann að það sem hann taldi vera snák er ekkert merkilegra en reipisvöndull. Ótti hans var óþarfur og maðurinn áttar sig á sannleikanum sem birtan bar honum.

Í togara á útmiðum situr sjómaður í myrkri. Í frystihúsi á vestfjörðum stendur þreytuleg kona í myrkri. Í eldhúsi í Árbænum borðar fjölskylda ýsu og kartöflur, í myrkri. Á stræti í útlöndum gengur íslenskur námsmaður í myrkri. Á þjóðvegi fyrir austan keyrir bóndi í myrkri. Á elliheimili í Breiðholti prjónar gömul kona í myrkri. Í strætóskýli í miðbænum standa unglingar í myrkri.

Þetta myrkur er þekkingarleysi. Þetta myrkur er menningarleysi. Þetta myrkur er sjálfhverfa, æsifréttamennska, yfirborðsmennska og ótti. Þetta myrkur er þess eðlis að það læðir inn tánni og villir á sér heimildir. Það getur jafnvel farið svo að þeir sem í myrkrinu sitja gleymi því að nokkuð annað sé til. Þeir venjast myrkrinu. Reka sig hver í annan því þeir sjá ekki að það er nóg pláss fyrir alla. Þeir láta kannski segja sér að þeir eigi ekkert val, að það sé ekkert til í þessum heimi nema þetta endalausa myrkur, þeir gleyma því að þeir þekktu einu sinni eitthvað annað. Sannfærast jafnvel á endanum um að þeir hljóti að hafa valið þetta myrkur sjálfir.

Eða þeir geta kveikt á útvarpinu.

Við kveikjum á útvarpinu og þar opnast heimurinn. Þar er vonin, þar er vitneskjan. Þar er allt það sem er stærra en við sjálf. Og það bjargar okkur. Vegna þess að við þurfum öll á því að halda að vera minnt á þetta stóra, á hið stóra í hinu smáa. Á fegurðina og samhengið. Við getum þetta ekki öðruvísi. Stjörnustríðið hefði aldrei verið unnið nema af því að Yoda birtist á réttum tímum með vitneskju sína, yfirvegun og inspirasjón. Gandalfur í Hringadróttinssögu, Dumbledore í Harry Potter. Ef við drepum vitringana hefur myrkrið vinninginn.

Útvarpið er vitringurinn sem við getum ekki án verið. Það er vitringur, samansettur úr því besta sem við eigum. Því fallegasta, því fróðasta. Það er menntakerfið okkar, heilbrigðiskerfi og upplýsingarkerfi. Það er stund milli stríða, það er sameiningarafl.  Þar er vandað til verks og þar sem vandað er til verks þar er sjálfsvirðing. Sjálfsvirðing þess sem hlustar, þess sem setur hlutina í samhengi og þess sem aflar sér þekkingu og andlegra verðmæta. Sjálfsvirðing þess sem viðurkennir og fagnar því að vera ekki alvitur en eiga þess kost að uppgötva heiminn. Sjálfsvirðing heillar þjóðar."

Ávarp Guðmunds Andra Thorssonar á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Guðmundur Andri Thorsson var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa erindi Guðmunds Andra í heild sinni:

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur ávarpar fjölmennan samstöðufund um Ríkisútvarpið í Háskólabíói.
Mynd: RÚV/Björn Malmquist

,,Í ljóðabókinni Kuðungasafnið frá því í fyrra eftir Óskar Árna Óskarsson er að finna ljóð sem lýsir atburðum síðustu vikna. Það er svona:
Í þorpinu Öxl rýfur ekkert þögnina. Ekkert hljóð heyrist
lengur, enginn fuglasöngur, enginn barnsgrátur, ekkert
bílflaut. Þegar þorpsbúar mætast á aðalgötunni kinka þeir
hæversklega kolli og horfast þegjandi í augu. Augnaráðið
er fullt af depurð og hljóðri einsemd. Upphaf þessa ástands
má rekja til þess að á aðventunni fyrir hálfu öðru ári varð
skósmiðnum það á að slökkva óvart á Jólaóratóríu Bachs í
útvarpinu. Og viti menn: eins og hendi hefði verið veifað
steinþagnaði þorpið. Síðan hafa íbúarnir lifað í þögn, þögn
sem ekkert rýfur, ekki einu sinni kólfur kirkjuklukkunnar
sem sveiflast hljóðlaust til og frá og kallar engan til sín.
Þegar ég kveiki á útvarpinu mínu, rás eitt,  þessa dagana heyri ég einmitt þessa þögn. Það er alltaf verið að endurflytja þar alls konar efni, sem er ákveðin tegund af þögn. Það er árið 2001 í útvarpinu mínu þessa  stundina, og næst þegar ég kveiki á því er komið árið 1999 eða 1985. Alls konar ár og aldrei sama árið þegar ég kveiki á útvarpinu mínu - alltaf nýtt og nýtt ár. Það er bara eitt ár sem vantar, einn mánuður sem vantar, ein vídd sem vantar: þegar ég kveiki á útvarpinu mínu er aldrei desember mánuður 2013.

Það vantar núið í útvarpið mitt. Það vantar útvarpið mitt í núið.

Þeir ætla sér að breyta útvarpinu í safn, skrín yfir það sem einu sinni var. Þeir vilja ekki að það geti verið rödd eða afl í samfélaginu; þrátt fyrir áratuga þrotlaust starf hefur þeim, stjórnmálamönnunum, enn ekki auðnast að finna leið til að ráða fullkomlega yfir því hvernig Ríkisútvarpið starfar og það er vegna þess að þessi stofnun á sér sjálfstæða tilveru í sambúð við þjóðina; hefð fyrir opinni, spurulli, forvitinni, efafullri, lifandi umræðu og samræðu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem nú stendur fyrir aðförinni að ríkisútvarpinu segir:
Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.
Í augum manna sem svona skrifa er íslensk þjóðmenning eitthvað sem þarf að vernda fremur en stunda, geyma og skrá fremur en að iðka, bera virðingu fyrir svona eins og maður ber virðingu fyrir því sem var alveg ágætt en er nú dáið. Þeir vilja að útvarpið verði drungalegt safn í hálflýstum sal með einum syfjulegum safnverði sem situr dottandi á stól úti í horni með fornfálegt kaskeiti. En útvarpið á ekkert að vera þannig. Með sín vönduðu vinnubrögð og sínar þrautreyndu aðferðir - sína sérstöku nálgun á veruleikann - á útvarpið einmitt að vera í miðjum hættum  og feiknum samtímans; það á að vera okkur vegvísir í dellunni sem á okkur dynur. Það á að vera okkur vegljós í gerningahríðinni sem geisar kringum okkur. Ríkisútvarpið á að vera sjálfur menningarvitinn sem lýsir okkur alla daga óháður dægursveiflum og dyntum ráðamanna og því hvernig veröldin veltist og velkist.

Og úr því að enginn virðist hafa döngun í sér annar þá verð ég víst að nefna þetta, umboðslaus maðurinn:  fyrir hönd hlustenda Ríkisútvarpsins, eigenda þess, þakka ég hinu brottrekna starfsfólki fyrir framlag sitt til íslenskrar menningar og umræðu. Við metum störf þeirra mikils, við söknum þeirra mjög og við hörmum það hvernig komið hefur verið fram við þau af hálfu stofnunarinnar.

Mannauðnarstjórarnir ganga hreint til verks. Þeir vilja ekki að til sé þetta stóra og mikla rými í þjóðmenningunni þar sem þeir hafa ekki beint boðvald. Þeir hafa verið að narta í Fréttastofuna og reyna að gera henni erfitt fyrir að segja okkur fréttir, og uppsagnir hafa verið víða um stofnunina á fólki sem starfað hefur við að framleiða efni. Á dögunum létu þeir svo til skarar skríða gegn þeirri gömlu sjálfri - Rás eitt - þar sem hjartað í stofnuninni slær. Fyrst verðum við dolfallin, svo lömuð, svo reið, síðan aftur lömuð og loks förum við að hugsa ... Svo förum við að safna okkur saman, haldast í hendur, mynda vegg, skapa skjól ... Þess vegna erum við hér núna, saman. Við söfnum okkur saman, hugsum saman, tökum höndum saman og svo: mótmælum við öll!"

Ályktun fundar til stuðnings Ríkisútvarpinu 4. des. 2013:

Guðrúnu Pétursdóttur fundarstjóri las ályktun fundarins.
Mynd: Jan Murtomaa
„Fundur haldinn í Háskólabíói til stuðnings Ríkisútvarpinu 4. desember 2013 fordæmir harðlega þá atlögu sem gerð hefur verið að starfi Ríkisútvarpsins með niðurskurði fjármuna og fjöldauppsögnum starfsfólks, nú síðast fyrir viku. Þær munu skaða verulega alla dagskrárgerð Ríkisútvarpsins og það merka og brýna starf sem þar er unnið.

Ríkisútvarpið hefur þegar tekið á sig mikinn niðurskurð með verulegri fækkun starfsfólks á undanförnum misserum. En sú atlaga sem nú er gerð er svo gróf að hún ógnar tilvist Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar.

Fundurinn átelur stjórn Ríkisútvarpsins fyrir aðgerðarleysi og sinnuleysi í aðdraganda þessara uppsagna sem eru í hrópandi ósamræmi við gildandi lög um Ríkisútvarpið og  skyldur þess skv. lögum og þjónustusamningi. Það er of seint að ætla að móta stefnuna þegar mörgum reyndustu starfsmönnum stofnunarinnar hefur verið sagt upp.

Fundurinn krefst tafarlausra skýringa á því hvernig ákvarðanir um uppsagnir voru teknar með hliðsjón af hlutverki útvarpsins.

Þess er krafist að farið verði að lögum um tekjur Ríkisútvarpsins og að Alþingi, ríkisstjórn, stjórn ríkisútvarpsins og útvarpsstjóri standi við þá skyldu sína að verja þessa einstöku upplýsinga- og menningarstofnun sem þeim hefur tímabundið verið falin ábyrgð á. Það er skylda þeirra að skila henni sterkri í hendur þeirra sem á eftir koma.“

Ályktun fundarins var samþykkt með dynjandi lófataki fundargesta sem allir risu úr sætum sínum.

„Okkar Ríkisútvarp“ Samstöðufundur / Hluthafafundur

Um 1200 manns sóttu fundinn í Háskólabíói og var salurinn þétt setinn.
Mynd: Vísir/Vilhelm
Miðvikudaginn 4. desember 2013
buðu nokkrir unnendur Ríkisútvarpsins
til opins fundar í Háskólabíói undir
yfirskriftinni „Okkar Ríkisútvarp“.
Um 1200 manns sóttu fundinn og þurftu margir að standa.

Ávörp fluttu Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona, Hanna G. Sigurðardóttir dagskrárgerðarkona á Rás 1, Benedikt Erlingsson leikstjóri, Sigríður Ólafsdóttir lífefnafræðingur og Kolbeinn Óttarsson Proppé fyrrverandi blaðamaður hjá Fréttablaðinu.

Fjöldi stuðningsyfirlýsinga barst fundinum frá innlendum og erlendum aðilum sem bera íslenska menningu fyrir brjósti.
Mynd: Askja Films
Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur stýrði fundinum og hljómsveitin Samúel Jón Samúelsson Big Band tók á móti gestum. Hér má sjá hljómsveitina flytja Bird's Lament eftir Moondog við byrjun fundarins, en lagið er inngangsstefið í þættinum Víðsjá á Rás1.


Ávarp Hönnu G. Sigurðardóttur á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Hanna G. Sigurðardóttir var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa erindi Hönnu í heild sinni:


Hanna G. Sigurðardóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1, ávarpar fjölmennan samstöðufund um Ríkisútvarpið í Háskólabíói.
Mynd: Jan Murtomaa

,,Hrunið og strikin í reikningana. Mörg strik. Alls staðar. Tvö þeirra í rekstrarreikning Ríkisútvarpsins fljótt eftir hrun. Í desember 2008 með uppsögn 44. Aftur rétt rúmu ári síðar, í janúar 2010, fækkun um 30 stöðugildi, allt að 50 manns.

Mikil blóðtaka fyrir starfsemina. En með þessum harkalegu aðgerðum var peningalegum rekstri Ríkisútvarpsins komið á réttan kjöl - og gott betur. Í lok tímabilsins 2009-2010 - hagnaður upp á tæpar 206 milljónir. Svo saxaðist á þennan hagnað þegar frá leið. Í árshlutauppgjöri í febrúarlok 2012 eru þó enn um 9 milljónir í plús. Í ágústlok sama ár, 2012, hins vegar tap upp á 85 milljónir (við höfum ekki nýrri tölur) Hvernig má það vera? Að á hálfu ári frá febrúar til ágúst 2012 glutrist niður tæpar 100 milljónir? Sem er svipuð upphæð og skorin er af Rás 1 nú. Hvað gerðist á útmánuðum og sumarið 2012 í rekstri Ríkisútvarpsins?

Tæpar 100 milljónir eru talsvert fé.

Tölur af þessu tagi vekja upp spurningar um hvernig staðið er að fjárhagslegum rekstri í Ríkisútvarpinu. Hefur verið skynsamlega farið með þá fjármuni sem þó hafa verið til ráðstöfunar ? Ábendingum á borð við þetta, tölulegar upplýsingar og spurningar, hefur verið reynt að koma á framfæri bréflega til stjórnar. Sömuleiðis á þeim örfáu almennu starfsmannafundum sem bjóðast hjá Ríkisútvarpinu. Lítið um svör, stundum loðin svör. Og heldur ekki svör við þeirri ábendingu að rekstrarkostnaður Rásar 1 er 7% af heildartekjum Ríkisútvarpsins; þannig var það amk. síðastliðið haust 2012 – þegar kostnaður við yfirstjórn var tæp 5 % * - Sjö prósent af heildartekjum Ríkisútvarpsins í rekstur Rásar 1 - er það eðlilegt ? Að hlutfall kostnaðar við starfsemi sem telja má eina af meginstoðunum í því hlutverki sem almannaútvarp á að gegna, sé ekki hærra?

Í síðustu viku gripu stjórnendur aftur til aðgerða. Enn harkalegri en fyrr. 60 starfsmenn. Út frá forsendum fjárlagafrumvarps sem enn hefur ekki verið samþykkt, ekki einu sinni komið til annarrar umræðu.

„Hvað erum við þá?“

Hópur leiðandi lista- og fræðafólks tjáir sig um mikilvægi menningar- og fræðsluhlutverks Ríkisútvarpsins í tilefni af samstöðufundi sem boðað var til í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember 2013.




„Ég væri ekki leikari án RÚV

Í myndbandinu koma fram:
Daníel Bjarnason tónskáld — Elín Hansdóttir myndlistarmaður — Ingvar E. Sigurðsson leikari
Jón Kalman rithöfundur — Kristín Svava Tómasdóttir ljóðskáld — Margrét Bjarnadóttir danshöfundur
Margrét Guðnadóttir veirufræðingur — Páll Óskar tónlistarmaður — Ragnar Bragason leikstjóri
Salvör Nordal heimspekingur — Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður — Þórunn Björnsdóttir kórstjóri

„Aðgerðir gærdagsins eru dauð síld“

Eiríkur Guðmundsson rithöfundur var meðal þeirra sem ávarpaði fjöldann fyrir utan Útvarpshúsið í Efstaleiti þann 28. nóvember sl. Hér má heyra erindið í heild sinni, endurflutt af höfundinum í Víðsjá:




„Stöndum með Ríkisútvarpinu“: Mótmæli við Útvarpshúsið í Efstaleiti

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013 var boðað til mótmæla við Útvarpshúsið í Efstaleiti undir yfirskriftinni „Stöndum með Ríkisútvarpinu“. Mótmælin beindust gegn fyrirhuguðum niðurskurði hjá RÚV í nýju fjárlagafrumvarpi og forgangsröðun fjármála bæði hjá ríkisstjórninni og yfirstjórn Ríkisútvarpsins.

Hátt í 500 manns mótmæltu við Útvarpshúsið í Efstaleiti upp úr hádegi á fimmtudeginum.
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir

Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1, var meðal þeirra sem tóku til máls.
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir
Mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson

Krafa mótmælenda var skýr: „Okkar RÚV“ - „Verndum RÚV“
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir
Rétt fyrir klukkan eitt eftir hádegi tókust mótmælendur í hendur og mynduðu hring utan um Útvarpshúsið.
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir

Yfirlýsing frá skipuleggjendum mótmælanna við Útvarpshúsið:

„Í dag mótmæltum við þeirri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem birtist í yfirvofandi niðurskurði hjá RÚV í nýju fjárlagafrumvarpi. Þjóðin þarf á ríkisfjölmiðli að halda sem starfar fyrst og fremst í þágu almennings. Ríkisútvarpið stendur um leið vörð um fagmennsku og gegnir mikilvægu hlutverki menntunar og menningarvarðveislu.

Ekki síður mótmæltum við forgangsröðun útvarpsstjóra. Með fjöldauppsögnum gærdagsins sýndi hann gífurlegt virðingarleysi gagnvart þaulreyndu og menntuðu dagskrárgerðarfólki Ríkisútvarpsins.

Við viljum að Íslendingar geri það að raunverulegu markmiði sínu að vera þjóð meðal þjóða – og að þeir viðurkenni og horfist í augu við að það markmið náist ekki án þess að gera upplýsta umræðu og menningu að kjarna tilveru sinnar. Hlutverk Ríkisútvarpsins í því starfi er ómissandi.

Við hvetjum þjóðina til þess að láta í sér heyra og þrýsta á íslensk stjórnvöld til að breyta fyrirætlunum við afgreiðslu fjárlaga.“

Arngunnur Árnadóttir og Valgerður Þóroddsdóttir boðuðu til mótmæla við Útvarpshúsið.
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir