Ávarp Melkorku Ólafsdóttur á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Melkorka Ólafsdóttir var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa og heyra erindi Melkorku í heild sinni:


,,Eldgömul saga segir af manni sem gengur inn í myrkvað herbergi. Í myrkrinu rekur hann augun í snák sem hringar sig ógnvekjandi fyrir framan hann. Hræðsla og ótti yfirtaka manninn, þar til hann áttar sig á því að kveikja á ljóstýru og beina henni að snáknum. Í ljóskeilunni sér hann að það sem hann taldi vera snák er ekkert merkilegra en reipisvöndull. Ótti hans var óþarfur og maðurinn áttar sig á sannleikanum sem birtan bar honum.

Í togara á útmiðum situr sjómaður í myrkri. Í frystihúsi á vestfjörðum stendur þreytuleg kona í myrkri. Í eldhúsi í Árbænum borðar fjölskylda ýsu og kartöflur, í myrkri. Á stræti í útlöndum gengur íslenskur námsmaður í myrkri. Á þjóðvegi fyrir austan keyrir bóndi í myrkri. Á elliheimili í Breiðholti prjónar gömul kona í myrkri. Í strætóskýli í miðbænum standa unglingar í myrkri.

Þetta myrkur er þekkingarleysi. Þetta myrkur er menningarleysi. Þetta myrkur er sjálfhverfa, æsifréttamennska, yfirborðsmennska og ótti. Þetta myrkur er þess eðlis að það læðir inn tánni og villir á sér heimildir. Það getur jafnvel farið svo að þeir sem í myrkrinu sitja gleymi því að nokkuð annað sé til. Þeir venjast myrkrinu. Reka sig hver í annan því þeir sjá ekki að það er nóg pláss fyrir alla. Þeir láta kannski segja sér að þeir eigi ekkert val, að það sé ekkert til í þessum heimi nema þetta endalausa myrkur, þeir gleyma því að þeir þekktu einu sinni eitthvað annað. Sannfærast jafnvel á endanum um að þeir hljóti að hafa valið þetta myrkur sjálfir.

Eða þeir geta kveikt á útvarpinu.

Við kveikjum á útvarpinu og þar opnast heimurinn. Þar er vonin, þar er vitneskjan. Þar er allt það sem er stærra en við sjálf. Og það bjargar okkur. Vegna þess að við þurfum öll á því að halda að vera minnt á þetta stóra, á hið stóra í hinu smáa. Á fegurðina og samhengið. Við getum þetta ekki öðruvísi. Stjörnustríðið hefði aldrei verið unnið nema af því að Yoda birtist á réttum tímum með vitneskju sína, yfirvegun og inspirasjón. Gandalfur í Hringadróttinssögu, Dumbledore í Harry Potter. Ef við drepum vitringana hefur myrkrið vinninginn.

Útvarpið er vitringurinn sem við getum ekki án verið. Það er vitringur, samansettur úr því besta sem við eigum. Því fallegasta, því fróðasta. Það er menntakerfið okkar, heilbrigðiskerfi og upplýsingarkerfi. Það er stund milli stríða, það er sameiningarafl.  Þar er vandað til verks og þar sem vandað er til verks þar er sjálfsvirðing. Sjálfsvirðing þess sem hlustar, þess sem setur hlutina í samhengi og þess sem aflar sér þekkingu og andlegra verðmæta. Sjálfsvirðing þess sem viðurkennir og fagnar því að vera ekki alvitur en eiga þess kost að uppgötva heiminn. Sjálfsvirðing heillar þjóðar."