Kolbeinn Óttarsson Proppé var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa og heyra erindi Kolbeins í heild sinni:
,,Ágætu fundarmenn.
Ríkisútvarpið. Þessi margslungni menningarvefur sem teygir anga sína inn í líf hvers og eins einasta íbúa þessa lands. Útvarp Reykjavík, nú verða sagðar fréttir. Miðstöðin er staðsettt í Reykjavík, en Ríkisútvarpið verður þó ekki til fyrr en í eyrum viðtakendanna – og þeir eru um allt landið og miðin og meira að segja úti í hinum stóra heimi.
Sumarmorgunn í sveitinni. Amma er að sýsla í eldhúsinu, afi kúrir aðeins lengur, enda klukkan rétt um 7, en ég er kominn á ról og nýt þess að hlusta á Gufuna með ömmu. Aprílkvöld í borginni rúmum 30 árum síðar. Við feðgar sitjum heima og hlustum á úrslitakvöld Músiktilrauna. Miðaldra maðurinn reynir að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast í tónlistarlífi landans og hvert er leitað? Að sjálfsögðu til Ríkisútvarpsins.
Þannig fylgir Ríkisútvarpið okkur frá vöggu til grafar, kynslóð eftir kynslóð. Á leið minni hingað í Háskólabíó gekk ég reyndar framhjá gröf íslenskrar menningar, þannig að kannski er við hæfi að við höldum þennan fund hér. En, öll höfum við skoðun á Ríkisútvarpinu; einhver þolir ekki tiltekinn útvarpsþátt eða jafnvel stjórnanda, annarri finnst Rás 1 bara vera fyrir gamla fólkið og þau eru til sem finnst þetta allt frábært. Þau sem enga skoðun hafa á einhverju af því sem Ríkisútvarpið býður upp á, bæði í útvarpi og sjónvarpi, eru hins vegar teljandi á fingrum annarrar handar, það munuð þið sannreyna í komandi jólaboðum. Af því að Ríkisútvarpið erum við, fólkið. Fólkið sem vinnur þar og fólkið sem nýtur afraksturs þeirrar vinnu.
Ríkisútvarpið er hins vegar ekki einkamál stjórnenda og stjórnmálamanna til að spila með eftir því hvernig vindar blása hverju sinni í þjóðlífinu. Ríkisútvarpið er leiðarhnoðað okkar og þegar það er farið að trosna rekjum við það ekki upp án umræðu, við reynum að bæta úr ástandinu og þétta hnykilinn.
Hvar er umræðan um Ríkisútvarpið? Hvar eru svörin við því af hverju sumu fólki er sagt upp, en öðru ekki, hvar eru svörin við því af hverju skera þarf niður um ákveðna krónutölu en ekki aðra, hvar er umræðan um hlutverk Ríkisútvarpsins?
Af hverju höldum við úti Rás 2? Sjónvarpsstöð? Sérrás fyrir íþróttir? Fréttastofu? Kastljósi? Ég held að þetta sé umræða sem við séum flestöll tilbúin til að taka, en á meðan stjórnendur og stjórnmálamenn þráast við að taka þátt í henni verður umræðan mjög einhliða – svolítið eins og að sitja heima í stofu og tala við útvarpstækið.
Af hverju höldum við úti Rás 1?
Ég get svarað því fyrir mína parta. Af því að það er hluti af menningu okkar og sögu. Mín skoðun er hins vegar ekki endilega sú rétta, kannski er hún ekki einu sinni rétt. En á meðan við ræðum ekki af alvöru, fordómalaust, um Ríkisútvarpið – hina einu sönnu sameign þjóðarinnar – þá verður starfsemi þess ætíð háð velvilja misvitra stjórnenda og stjórnmálamanna og það má ekki gerast – sama hvaða stjórnendur og hvaða stjórnmálamenn eiga í hlut hverju sinni.
Ríkisútvarpið er of mikilvægt til að verða að pólitískri skiptimynt. Stöndum vörð um þetta fjöregg og þar með um menningu okkar.
Því það er alveg sama hvað hver segir; Ríkisútvarpið er ekki hús, ekki starfsfólk og ekki einu sinni dagskrá.
Ríkisútvarpið er menning. Ríkisútvarpið er við. Við öll.
Þetta er okkar Ríkisútvarp – vinsamlegast skilið því aftur."
Ríkisútvarpið. Þessi margslungni menningarvefur sem teygir anga sína inn í líf hvers og eins einasta íbúa þessa lands. Útvarp Reykjavík, nú verða sagðar fréttir. Miðstöðin er staðsettt í Reykjavík, en Ríkisútvarpið verður þó ekki til fyrr en í eyrum viðtakendanna – og þeir eru um allt landið og miðin og meira að segja úti í hinum stóra heimi.
Sumarmorgunn í sveitinni. Amma er að sýsla í eldhúsinu, afi kúrir aðeins lengur, enda klukkan rétt um 7, en ég er kominn á ról og nýt þess að hlusta á Gufuna með ömmu. Aprílkvöld í borginni rúmum 30 árum síðar. Við feðgar sitjum heima og hlustum á úrslitakvöld Músiktilrauna. Miðaldra maðurinn reynir að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast í tónlistarlífi landans og hvert er leitað? Að sjálfsögðu til Ríkisútvarpsins.
Þannig fylgir Ríkisútvarpið okkur frá vöggu til grafar, kynslóð eftir kynslóð. Á leið minni hingað í Háskólabíó gekk ég reyndar framhjá gröf íslenskrar menningar, þannig að kannski er við hæfi að við höldum þennan fund hér. En, öll höfum við skoðun á Ríkisútvarpinu; einhver þolir ekki tiltekinn útvarpsþátt eða jafnvel stjórnanda, annarri finnst Rás 1 bara vera fyrir gamla fólkið og þau eru til sem finnst þetta allt frábært. Þau sem enga skoðun hafa á einhverju af því sem Ríkisútvarpið býður upp á, bæði í útvarpi og sjónvarpi, eru hins vegar teljandi á fingrum annarrar handar, það munuð þið sannreyna í komandi jólaboðum. Af því að Ríkisútvarpið erum við, fólkið. Fólkið sem vinnur þar og fólkið sem nýtur afraksturs þeirrar vinnu.
Ríkisútvarpið er hins vegar ekki einkamál stjórnenda og stjórnmálamanna til að spila með eftir því hvernig vindar blása hverju sinni í þjóðlífinu. Ríkisútvarpið er leiðarhnoðað okkar og þegar það er farið að trosna rekjum við það ekki upp án umræðu, við reynum að bæta úr ástandinu og þétta hnykilinn.
Hvar er umræðan um Ríkisútvarpið? Hvar eru svörin við því af hverju sumu fólki er sagt upp, en öðru ekki, hvar eru svörin við því af hverju skera þarf niður um ákveðna krónutölu en ekki aðra, hvar er umræðan um hlutverk Ríkisútvarpsins?
Af hverju höldum við úti Rás 2? Sjónvarpsstöð? Sérrás fyrir íþróttir? Fréttastofu? Kastljósi? Ég held að þetta sé umræða sem við séum flestöll tilbúin til að taka, en á meðan stjórnendur og stjórnmálamenn þráast við að taka þátt í henni verður umræðan mjög einhliða – svolítið eins og að sitja heima í stofu og tala við útvarpstækið.
Af hverju höldum við úti Rás 1?
Ég get svarað því fyrir mína parta. Af því að það er hluti af menningu okkar og sögu. Mín skoðun er hins vegar ekki endilega sú rétta, kannski er hún ekki einu sinni rétt. En á meðan við ræðum ekki af alvöru, fordómalaust, um Ríkisútvarpið – hina einu sönnu sameign þjóðarinnar – þá verður starfsemi þess ætíð háð velvilja misvitra stjórnenda og stjórnmálamanna og það má ekki gerast – sama hvaða stjórnendur og hvaða stjórnmálamenn eiga í hlut hverju sinni.
Ríkisútvarpið er of mikilvægt til að verða að pólitískri skiptimynt. Stöndum vörð um þetta fjöregg og þar með um menningu okkar.
Því það er alveg sama hvað hver segir; Ríkisútvarpið er ekki hús, ekki starfsfólk og ekki einu sinni dagskrá.
Ríkisútvarpið er menning. Ríkisútvarpið er við. Við öll.
Þetta er okkar Ríkisútvarp – vinsamlegast skilið því aftur."