Yfirlýsing frá skipuleggjendum mótmælanna við Útvarpshúsið:

„Í dag mótmæltum við þeirri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem birtist í yfirvofandi niðurskurði hjá RÚV í nýju fjárlagafrumvarpi. Þjóðin þarf á ríkisfjölmiðli að halda sem starfar fyrst og fremst í þágu almennings. Ríkisútvarpið stendur um leið vörð um fagmennsku og gegnir mikilvægu hlutverki menntunar og menningarvarðveislu.

Ekki síður mótmæltum við forgangsröðun útvarpsstjóra. Með fjöldauppsögnum gærdagsins sýndi hann gífurlegt virðingarleysi gagnvart þaulreyndu og menntuðu dagskrárgerðarfólki Ríkisútvarpsins.

Við viljum að Íslendingar geri það að raunverulegu markmiði sínu að vera þjóð meðal þjóða – og að þeir viðurkenni og horfist í augu við að það markmið náist ekki án þess að gera upplýsta umræðu og menningu að kjarna tilveru sinnar. Hlutverk Ríkisútvarpsins í því starfi er ómissandi.

Við hvetjum þjóðina til þess að láta í sér heyra og þrýsta á íslensk stjórnvöld til að breyta fyrirætlunum við afgreiðslu fjárlaga.“

Arngunnur Árnadóttir og Valgerður Þóroddsdóttir boðuðu til mótmæla við Útvarpshúsið.
Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir