Ályktun fundar til stuðnings Ríkisútvarpinu 4. des. 2013:

Guðrúnu Pétursdóttur fundarstjóri las ályktun fundarins.
Mynd: Jan Murtomaa
„Fundur haldinn í Háskólabíói til stuðnings Ríkisútvarpinu 4. desember 2013 fordæmir harðlega þá atlögu sem gerð hefur verið að starfi Ríkisútvarpsins með niðurskurði fjármuna og fjöldauppsögnum starfsfólks, nú síðast fyrir viku. Þær munu skaða verulega alla dagskrárgerð Ríkisútvarpsins og það merka og brýna starf sem þar er unnið.

Ríkisútvarpið hefur þegar tekið á sig mikinn niðurskurð með verulegri fækkun starfsfólks á undanförnum misserum. En sú atlaga sem nú er gerð er svo gróf að hún ógnar tilvist Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar.

Fundurinn átelur stjórn Ríkisútvarpsins fyrir aðgerðarleysi og sinnuleysi í aðdraganda þessara uppsagna sem eru í hrópandi ósamræmi við gildandi lög um Ríkisútvarpið og  skyldur þess skv. lögum og þjónustusamningi. Það er of seint að ætla að móta stefnuna þegar mörgum reyndustu starfsmönnum stofnunarinnar hefur verið sagt upp.

Fundurinn krefst tafarlausra skýringa á því hvernig ákvarðanir um uppsagnir voru teknar með hliðsjón af hlutverki útvarpsins.

Þess er krafist að farið verði að lögum um tekjur Ríkisútvarpsins og að Alþingi, ríkisstjórn, stjórn ríkisútvarpsins og útvarpsstjóri standi við þá skyldu sína að verja þessa einstöku upplýsinga- og menningarstofnun sem þeim hefur tímabundið verið falin ábyrgð á. Það er skylda þeirra að skila henni sterkri í hendur þeirra sem á eftir koma.“

Ályktun fundarins var samþykkt með dynjandi lófataki fundargesta sem allir risu úr sætum sínum.