Ávarp Sigríðar Ólafsdóttur á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Sigríður Ólafsdóttir var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa og heyra erindi Sigríðar í heild sinni:


,,Góðir fundarmenn, bandamenn Ríkisútvarpsins.

Alla ævi hef ég mikið hlustað á útvarp. Músík, leikrit, fræðsla, skoðanir, fréttir, menningar- og samfélagsstraumar og upplýsingar utan úr heimi. Þar töluðu, og tala enn, hugsuðir, fræðimenn, listamenn og leiðtogar þjóðarinnar, fólk sem á erindi til almennings. Dagskrárgerðarfólkið okkar tryggir að efnið skili sér í hæfilegum skömmtum og að fyllt sé í eyður með spurningum og umræðum. 

Útvarpið er hluti af mér og endurspeglar að hluta minn veruleika. En Útvarpið hefur líka verið allt mögulegt annað en það sem ég þekki og kann skil á. Útvarpið hefur gert mig sólgna í tíðindi, menningu og frásagnir af mannlífi sem er mér algerlega framandi og ég vissi ekki að væri til. Ég fæ að heyra tónlist sem ég vissi ekki að mér þætti skemmtileg, sögur sem vekja gleði og furðu, hugmyndir sem ýta við mér og lifa í hausnum á mér lengi á eftir. Í útvarpinu er menning og þverskurður af samfélaginu í öllum sínum fjölbreytileika. Þess vegna er það svo mikilvægt.

Í 3. Grein laga um ríkisútvarpið segir m.a.:
„Fjölmiðlaþjónusta Ríkisútvarpsins í almannaþágu hefur það markmið að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda.“
Þar stendur líka:
„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni“.
Ennfremur segir í Samningi Ríkisútvarpsins ohf og mennta og menningamálaráðuneytis (gildir frá maí 2011 - desember 2015):
“Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða og miðla upplýsingum um mikilvæg málefni líðandi stundar og þannig auðvelda fólki að taka virkan þátt í lýðræðislegri umræðu.“
Höfum þetta í huga þegar við minnumst þess að 4 af 8 umsjónarmönnum Kastljóssins var sagt upp í síðustu viku og 2 af 4 umsjónarmönnum Spegilsins, en þessir þættir eru öflugasti vettvangur gagnrýnnar umræðu í landinu. Í þessu ljósi er enn undarlegra að skömmu fyrir uppsagnirnar var maður sem nátengdur er stjórnmálaflokki, ráðinn án auglýsingar til að annast léttan og skemmtilegan þátt, á stað í sjónvarpsdagskránni þar sem áður hafði farið fram gagnrýnin umræða.

Í lögunum er talað um að sérstakt efni skuli vera fyrir börn og ungmenni. Með uppsögnunum í síðustu viku hefur allt barnaefni verið fellt niður í útvarpi.

Tónlistardeild Rásar 1 hefur nánast verið rústað!

Fyrir nokkrum misserum rættist ósk mín þegar sérstakur þáttur á Rás 1 var helgaður Vísindaumfjöllun. Umsjón hafði dagskrárgerðarmaður sem hafði einstakt lag á að kynna flókin fyrirbæri fyrir almenningi á skýran hátt. Enginn annar fjölmiðlamaður hefur sinnt vísindum jafnvel og hann. Honum var sagt upp. Nú er enginn starfsmaður hjá Ríkisútvarpinu sem sinnir vísindafréttum. Á sama hátt var starfsmanninum sem hefur sinnt náttúruvernd og umhverfismálum af krafti um margra ára skeið sagt upp.

Við uppsagnirnar í síðustu viku er ekki að sjá að neinni stefnu hafi verið fylgt. Var virkilega stefna að hætta að fjalla um vísindi og umhverfismál?  Hætta að hafa barnaefni í útvarpinu? Hver var tilgangurinn með því að fá lausráðinn mann inn í staðinn fyrir þul sem sagt hafði verið upp. Varla til að spara.

Uppsagnirnar holt og bolt sýna að Ríkisútvarpinu er ekki vel stjórnað.

Í fjárlagafrumvarpinu hafa stjórnvöld gefið í skyn að minnka eigi fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Í lögum um Ríkisútvarp stendur að einstaklingar og skattskyldir lögaðilar skuli greiða kr. 18.800 útvarpsgjald. Ef maður reiknar saman 37 þús lögaðila og 270 þús skattgreiðendur gefur það 5,7 milljarða (Úr Tíund, tímariti Ríkisskattstjóra). Í ársreikningi fyrir árið 2012 stendur að þjónustutekjur Ríkisútvarpsins séu 3,1 milljarður  og auglýsingatekjur 1,8 milljarðar. Hvað varð um 2,6 milljarðana til viðbótar sem Ríkisútvarpið átti að fá skv. lögum?  Fjárlög eru samningur við skattgreiðendur. Ég sé ekki betur en að stjórnvöld séu að svíkja sinn hluta samningsins og séu að fremja lögbrot.

Ástæðurnar fyrir því að ég er hér í dag eru tvær spurningar sem er ósvarað:
• Eru stjórnvöld að stela nefskatti landsmanna og nota hann til starfsemi sem er óskyld útvarpsrekstri?
• Er til einhver réttlæting á því af hverju tilteknum starfsmönnum Ríkisútvarpsins var sagt upp í síðustu viku?  M.ö.o. Hver er stefna stjórnar og yfirmanna útvarpsins við uppsagnir starfsmanna?
Í grein í Fréttablaðinu í gær sem rituð var af stjórnarmanni Ríkisútvarpsins sagði meðal annars:
„Stjórn Ríkisútvarpsins ákvað á fundi sínum í síðustu viku að nauðsynlegt væri að skerpa dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins og gera stefnu stofnunarinnar miklu sýnilegri og skiljanlegri almenningi“.
Ég spyr:  Hefði ekki verið ástæða til að skerpa á dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins áður en ákvörðun var tekin um að segja upp 60 starfsmönnum. Ég held að almenningur skilji vel hvað Ríkisútvarpinu er ætlað að gera, en spurningin er hvort stjórnendur Útvarpsins gera það.

Ég skora á stjórn útvarpsins að láta stjórnendur afturkalla uppsagnirnar og segja engum upp þar til stefnan hefur verið ákveðin!

Svo skora ég á fjármálaráðherra að hætta að svíkja mig og aðra skattgreiðendur um nautnina af góðu ríkisútvarpi fyrir féð sem lögum samkvæmt á að renna til Ríkisútvarpsins."