Ávarp Hönnu G. Sigurðardóttur á samstöðufundi um Ríkisútvarpið

Hanna G. Sigurðardóttir var meðal þeirra sem flutti ávarp á fjölmennum samstöðufundi um Ríkisútvarpið í Háskólabíói miðvikudaginn 4. desember sl. Hér má lesa erindi Hönnu í heild sinni:


Hanna G. Sigurðardóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1, ávarpar fjölmennan samstöðufund um Ríkisútvarpið í Háskólabíói.
Mynd: Jan Murtomaa

,,Hrunið og strikin í reikningana. Mörg strik. Alls staðar. Tvö þeirra í rekstrarreikning Ríkisútvarpsins fljótt eftir hrun. Í desember 2008 með uppsögn 44. Aftur rétt rúmu ári síðar, í janúar 2010, fækkun um 30 stöðugildi, allt að 50 manns.

Mikil blóðtaka fyrir starfsemina. En með þessum harkalegu aðgerðum var peningalegum rekstri Ríkisútvarpsins komið á réttan kjöl - og gott betur. Í lok tímabilsins 2009-2010 - hagnaður upp á tæpar 206 milljónir. Svo saxaðist á þennan hagnað þegar frá leið. Í árshlutauppgjöri í febrúarlok 2012 eru þó enn um 9 milljónir í plús. Í ágústlok sama ár, 2012, hins vegar tap upp á 85 milljónir (við höfum ekki nýrri tölur) Hvernig má það vera? Að á hálfu ári frá febrúar til ágúst 2012 glutrist niður tæpar 100 milljónir? Sem er svipuð upphæð og skorin er af Rás 1 nú. Hvað gerðist á útmánuðum og sumarið 2012 í rekstri Ríkisútvarpsins?

Tæpar 100 milljónir eru talsvert fé.

Tölur af þessu tagi vekja upp spurningar um hvernig staðið er að fjárhagslegum rekstri í Ríkisútvarpinu. Hefur verið skynsamlega farið með þá fjármuni sem þó hafa verið til ráðstöfunar ? Ábendingum á borð við þetta, tölulegar upplýsingar og spurningar, hefur verið reynt að koma á framfæri bréflega til stjórnar. Sömuleiðis á þeim örfáu almennu starfsmannafundum sem bjóðast hjá Ríkisútvarpinu. Lítið um svör, stundum loðin svör. Og heldur ekki svör við þeirri ábendingu að rekstrarkostnaður Rásar 1 er 7% af heildartekjum Ríkisútvarpsins; þannig var það amk. síðastliðið haust 2012 – þegar kostnaður við yfirstjórn var tæp 5 % * - Sjö prósent af heildartekjum Ríkisútvarpsins í rekstur Rásar 1 - er það eðlilegt ? Að hlutfall kostnaðar við starfsemi sem telja má eina af meginstoðunum í því hlutverki sem almannaútvarp á að gegna, sé ekki hærra?

Í síðustu viku gripu stjórnendur aftur til aðgerða. Enn harkalegri en fyrr. 60 starfsmenn. Út frá forsendum fjárlagafrumvarps sem enn hefur ekki verið samþykkt, ekki einu sinni komið til annarrar umræðu.
Hafi þessar síðustu aðgerðir engu að síður verið óhjákvæmilegar, vakna spurningar um hvar þær koma aðallega niður. Harðast á Rás 1. Þar fækkar um 12 manns þegar allt er talið. Um það bil helming starfsmanna. Tónlistardeildin er rústir einar, 1 og 1/2 stöðugildi eftir í þáttagerð, eitt til viðbótar í yfirumsjón. Og jóladagskráin í vinnslu, dagskrá sem að stórum hluta stendur saman af tónlist - hún er í uppnámi. -Einum af þremur þulum hent út samstundis, á tíma þegar mest mæðir á þessum starfsmönnum; annar fylgir í kjölfarið um áramót. -Átta störf á fréttastofu, Kastljósið lemstrað með uppsögnum fjögurrra starfsmanna, fjórum sagt upp á Rás 2, afmælisrásinni. Barnaefni heyrir líklega sögunni til í útvarpi um áramót, með uppsögn umsjónarkvennanna tveggja. Þannig mætti áfram telja. Brottreknir allir í hópi þeirra sem koma beint að vinnslu og útsendingu dagskrárinnar.

Engum sagt upp í yfirstjórn, millistjórnendur varðir, markaðsdeildin svo til óhreyfð. Er þetta eðlileg forgangsröð þurfi á annað borð að fara í aðgerðir? Hver er sýnin?

Við sjáum og heyrum starfsmenn Ríkisútvarpsins, að okkur sé engin vorkunn. Víða sagt upp, hópum fólks. Og sannarlega er það svo. -Framhjá því verður hins vegar ekki litið að fjölmiðill í almannaeigu hefur nokkra sérstöðu og með þessum uppsögnum er verið að veikja hann. Fjölmiðill í almannaeigu hefur skyldur til að veita trúverðugar upplýsingar. Sömuleiðis að spyrja gagnrýnna spurninga, m.a um uppsagnir og samdrátt á öðrum stöðum í samfélaginu. Miðla fræðslu og menningarefni af margvíslegum toga. Vinna úr, setja í samhengi, varðveita - gleymið ekki þjóðarsafninu í hljóði og mynd í kjallaranum í Efstaleiti. Fréttum af Surtseyjargosi, upptökum frá listahátíð, ræðum stjórnmálamanna. Langt aftur í tímann- kannski vilja einhverjir að eitthvað af þeim ræðum týnist!

Starfsmenn hafa reynt að rýna í uppsagnalistann til að finna einhvern samnefnara. Enginn trúverðugur finnst. Hlutverk Ríkisútvarpsins ? Varla. Starfsaldur og reynsla - nei. Bæði gamlir í hettunni og þeir sem skemmra hafa starfað eru meðal brottrekinna. Verðlaun utan úr samfélaginu fyrir vel unnin störf - engin trygging þar. Meira að segja sá mælikvarði sem stjórnendum er svo gjarnt að nefna, hlustenda- og áhorfsmælingar - sem auðvitað eiga ekki að vera megin leiðarljósið í starfsemi almannaútvarps - meira að segja þessar mælingar höfðu ekkert að segja. A.m.k. var þeim tveimur starfsmönnum Rásar 1 sem skora hæst á þann mælikvarða sagt upp.

Hver var þá hugsunin að baki þessum aðgerðum ? Var einhver hugsun ? Hefur stjórn stofnunarinnar markað stefnu, hverjar eru áherslurnar?

Þriðjudagseftirmiðdagur fyrir rúmri viku. Í Efstaleiti kvisast út að fjöldauppsagnir verði daginn eftir. Eitthvað sem hefur verið yfirvofandi í tvo mánuði. Nývöknuð á miðvikudagsmorgni kíki ég því strax í vinnupóstinn. Engin merki um aðgerðir. Fer að tygja mig af stað, en hrekk upp við örvæntingarfull sms frá ættingum. Fréttir af uppsögnum komnar í fjölmiðla. -Mæti í Efstaleitið um kl. 9, hitti þar fyrst fyrir grátbólgna kæra samstarfskonu mína. Einn af öðrum kallaður upp á fimmtu, enginn veit hver er næstur. Sjálf veit ég ekki hvort mér er ætlað að senda út þáttinn sem fer í loftið tveimur tímum síðar, á ég að afboða viðmælendur, verður þátturinn yfirleitt á dagskrá ? Enginn þeirra fáu sem eitthvað vita, má segja neitt. Það er eins og leyniskytta sé í húsinu.

Svona er þá unnið í merkri stofnun í eigu þjóðarinnar. Er þetta í anda menningarstefnu, mannauðsstefnu, - er þetta fagleg stjórnun?

Er ekki full ástæða til að láta skoða, hvernig staðið er að verki í Ríkisútvarpinu?"



--
Tengdar fréttir: